142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að vera sjálfsagt að verða við þeirri beiðni sem fram er komin. Það er frumskylda Alþingis að gæta að lýðræði og tjáningarfrelsi í landinu og þá ekki síst að huga að þeim sem eru að senda þinginu sjálfu beinar áskoranir eins og hér er um að ræða. Tugir þúsunda manna hafa ákveðið að senda þinginu tiltekna áskorun og framkvæmdarvaldið grípur inn í og kallar fólk á teppið til sín af því tilefni, að ég ekki tali um með afriti á yfirmann viðkomandi hjá ríkisstofnun, sem mér skilst að vinni hjá íslenska ríkinu. Fólk þarf að mæta á fund ráðherra með lögfræðing sér við hlið. Það er auðvitað enginn bragur á þessu og bara yfirlýst af hálfu ráðuneytisins að þetta séu mistök. Þetta eru mjög alvarleg mistök og það verður að skýra þau og fá afsökunarbeiðni ráðherrans þegar í stað. Það er sjálfsagt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi saman og þingfundi verði frestað meðan þetta mál er klárað.