142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að fá úr því skorið af hálfu forseta þingsins hvort hann tekur undir þær kröfur að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði kölluð saman til fundar og hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála boðaður á þann fund til að gera grein fyrir þeirri stjórnsýslu sem hér um ræðir.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða, það er mjög alvarlegt þegar ráðherra kallar fyrir sig einstakling úti í bæ sem nýtir lýðræðislegan rétt sinn, tjáningarfrelsið og mannréttindi samkvæmt stjórnarskrá, til að beita sér í tilteknu máli, að ráðherra boðar hann á sinn fund með afriti á yfirmann. Í því felst dulbúin hótun, eða kannski ekki einu sinni dulbúin, um að menn geti goldið fyrir með starfi sínu ef þeir skipta sér af málum sem ríkisstjórnin leggur inn í þingið.

Þetta er mjög alvarleg aðför að tjáningarfrelsinu og mannréttindum og það er ekki hægt að líða það. Ég geri þá kröfu að forseti geri hlé á þessum fundi og það verði kannað hvort unnt sé að boða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til fundar og að ráðherrann verði kallaður þar fyrir umyrðalaust.