142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki góður siður að vitna í umræður í nefnd, og meira en að það sé ekki góður siður heldur er það ekki heimilt, skilst mér, að gera það þannig að ég fer nú ekki út í það í smáatriðum. Hins vegar hljótum við að kalla til þess að hingað komi að umræðunni einhver fulltrúi Framsóknarflokksins. Framsóknarmennirnir í nefndinni skrifa allir undir meirihlutaálitið án fyrirvara þannig að það liggur að minnsta kosti fyrir að afstaða þeirra er fullkomlega gagnrýnislaus. Það eru ekki einu sinni reifuð sjónarmið á móti eða að niðurstaðan sé reifuð út frá einhverjum tilteknum sjónarmiðum. Það er bara þetta rýra nefndarálit meiri hlutans sem liggur þá til grundvallar og fulltrúar Framsóknar í nefndinni skrifa undir það álit án þess að gera sérstaklega grein fyrir þeim viðsnúningi sem hér er á ferð.

Það sem er kannski umhugsunarvert í þessu líka er sú staðreynd að tveir af núverandi ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson og hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, voru báðir með málinu, greiddu beinlínis atkvæði með málinu. Það var ekki um að ræða hjásetu, eins og hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni sem var ekki það heitur í málinu fyrir þremur mánuðum að hann hefði á því sérstaka skoðun, heldur stóðu þessir fulltrúar beinlínis með málinu og studdu það. Viðsnúningurinn er því eitthvað sem, virðulegur forseti, hv. þingmaður þarf að leita annað til að fá röksemdir fyrir því að sú sem hér stendur er alveg jafn gáttuð á honum og þingmaðurinn sem spyr.