142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Auðvitað er sjálfsagt að virða þann trúnað sem vera ber í nefndastörfum þingsins og fullkomlega eðlilegt að framsóknarmenn komi sjálfir í ræðustólinn og geri grein fyrir því hvers vegna þeir skipta um skoðun eins og sokka í þessu máli á aðeins tveimur mánuðum og hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra með meiru, eru beinlínis flutningsmenn að málinu því að málið er jú stjórnarfrumvarp. Við treystum því bara að þeir komi á mælendaskrána og lýsi því hvað veldur þessum viðsnúningi og hvers vegna ekki var gerð grein fyrir honum í kosningabaráttunni.

Hitt sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í, einfaldlega vegna þess að í önnum kosningabaráttunnar og vetrarins fór kannski fram hjá mér sú umfjöllun um Ríkisútvarpið sem ég hygg að hafi meðal annars komið frá fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, kannski það hafi líka verið vegna þess að ég geri ekki mikið af því að fylgjast með tilteknum vefmiðlum í landinu og hef fötlun mína sem ágætt skálkaskjól í því efni: Var þar um að ræða einhverjar hótanir í garð útvarpsins eða einhvers konar yfirgang um ritstjórnarstefnu þar eða pólitísk afskipti? Það væri gott ef ég mætti glöggva mig betur á því.