142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Internetið er ekki bóla. Ég get í símanum á borðinu hjá mér skoðað mælendaskrána sem fram undan er í þessu máli og þar er enginn framsóknarmaður á lista. Ég held að það sé alveg við hæfi að við köllum eftir því að einhver framsóknarmaður geri það okkur og þingræðinu til gleði að koma hingað og gera grein fyrir sinnaskiptunum. Ég held að það sé bara hollt og gott fyrir umræðuna vegna þess að það er alltaf gott að heyra góðan rökstuðning fyrir viðsnúningi í skoðunum.

Hvað varðar hitt málið sem hv. þingmaður spyr um er ég nú ekki með fyrir framan mig þann pistil á evropuvaktin.is sem ég vitnaði lauslega til í fyrri ræðu minni en mér er það bæði ljúft og skylt að koma upp síðar í umræðunni og gera þá ítarlegar grein fyrir því sem þar stóð. Ég mun taka þeirri áskorun hv. þingmanns að gera það og set mig á mælendaskrá af því tilefni.

Ég lýsi hér enn og aftur eftir framsóknarmanni í þessa umræðu.