142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að lýsa mig algjörlega sammála hv. þingmönnum Svandísi Svavarsdóttur og Valgerði Bjarnadóttur sem hafa lýst furðu sinni á orðum hæstv. forseta. Eflaust má finna fjölmörg dæmi þess úr fortíðinni að fagnefndir hafi kallað ráðherra á sinn fund til að rækja eftirlitshlutverk sitt en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nýlegt fyrirbæri í þingsköpunum og hún hefur nákvæmlega það hlutverk. Ég er ekki með þingsköpin í töskunni eins og vanalega, hefði þurft að hafa þau hér og nú, en þetta er nákvæmlega hlutverk nefndarinnar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hafa eftirlit með því hvernig ráðherra framkvæmir vald sitt.

Þetta mál á ekkert erindi í atvinnuveganefnd. Þá væri alveg eins hægt að senda það til velferðarnefndar, en það væri fráleitt að láta sér detta í hug að senda mál sem þetta annað en til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.