142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst inna hæstv. forseta — þegar forseti má veita því athygli — eftir því hvort þess sé ekki að vænta að hæstv. menntamálaráðherra verði eitthvað við umræðuna. Það er nú svona heldur ljóður á ráði að hæstv. ráðherra hefur nánast ekki sést hérna í umræðunni, að minnsta kosti ekki hina seinni klukkutíma. En kannski lýkur fundi hvort sem er innan tíðar þannig að við það er ekki að sakast, en ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra hefði náð að hlýða á einhvern hluta máls míns þannig að ég geti beint til hans spurningum.

Margt vekur athygli satt best að segja við þetta mál og má eiginlega byrja á því að það vekur forundran að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra skuli yfirleitt vera með málið hér á því sem átti að vera stutt sumarþing, að við töldum. Ég hafði reiknað með að hæstv. ríkisstjórn mundi raða inn á það sínum allra mikilvægustu forgangsmálum, þeim sem þyldu illa bið og á því hefði verið fullur skilningur að ríkisstjórnin hefði komið með mál sem væru þannig sett í tíma að þau þyrftu helst að fá afgreiðslu í vor, eins og til dæmis því að þingmenn hafa verið að greiða götu tveggja frumvarpa sem tengjast því að næsta fiskveiðiár geti hafist með skikkanlegum hætti 1. september næstkomandi. Sjálfsagt mál. Skiljanlegt og eðlilegt. Gera þarf tilteknar ráðstafanir í lögum í sumar til að fiskveiðiárið geti hafist án vandkvæða, framlengja bráðabirgðaákvæði og annað í þeim dúr. En það á ekki við hér.

Það vekur satt best að segja furðu að eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar skuli vera þetta mál, að breyta algjörlega nýsettum lögum um Ríkisútvarpið og tilefnin ekki ríkari en þau er hér hefur komið fram.

Hvað er Ríkisútvarpið? Það er ríkisútvarp. Það er fjölmiðill í almannaþágu. Það var einmitt styrkt í nýju löggjöfinni um Ríkisútvarpið sem heita: Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

Ef við veltum málinu aðeins fyrir okkur út frá markmiðsgrein laganna þá er þar að lesa, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill“ — ég endurtek, þjóðarmiðill — „og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“

Þetta hljómar allt mjög fallega, herra forseti, ekki síst geri ég ráð fyrir að þeir hinir nýju þjóðlegu sinnuðu stjórnmálamenn sem helst vilja ganga í þjóðbúningi upp á hvern dag séu ánægðir með þetta. Þarna er verið að reyna að lýsa því eins kjarnyrt og mögulegt er hvað Ríkisútvarpið, almannamiðillinn, er í okkar þágu sem þjóðar. Við eigum þar af leiðandi að vanda okkur og umgangast Ríkisútvarpið af virðingu og í samræmi við það mikla hlutverk sem við ætlum því. Svo getum við auðvitað deilt um og rætt hvort það standi alltaf undir þeim væntingum sem til þess eru gerðar. En af hálfu löggjafans að minnsta kosti er alveg ljóst að Ríkisútvarpinu er ætlað veigamikið hlutverk. Það er ein af móðurstofnunum okkar menningar að sjálfsögðu og það er mikilvægur tengiliður þjóðarinnar. Það er rekið sem opinbert útvarp vegna þess að við viljum tryggja þessa hluti meðal annars með því að til sé öflugur fjölmiðill sem nái til allra landsmanna og sinni því hlutverki. Fylli í göt sem gjarnan vilja verða hvað það snertir að einkareknir fjölmiðlar eða aðrir slíkir standi sig í stykkinu. Svo kemur auðvitað til sögunnar öryggishlutverk Ríkisútvarpsins og allt það.

Því er ég nú að reifa þetta, virðulegi forseti, að frumvarpið vekur eiginlega enn meiri furðu sett í það ljós, þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er afar athyglisvert. Og þetta frumvarp er dapurlegt vegna þess að það er afturhvarf til gamalla tíma. Það er ekkert annað. Maður hefur í bjartsýni sinni verið að gera sér vonir um að við værum á leiðinni í burtu frá þessu öllu saman, í burtu frá pólitískri stýringu, pólitískum afskiptum af fjölmiðlun, af menningu og öðru slíku.

Að vísu bregður manni svolítið í brún þegar maður fer ósjálfrátt að halda að Jónas frá Hriflu sé aftur kominn á daga og farinn að skrifa hvern textann á fætur öðrum og jafnvel semja heilu ræðurnar, en það er önnur saga. Hann hafði tilhneigingu til þess að sögn að vilja straumlínulaga menninguna og ákveða hvað væri menning og hvað ekki. Það voru þeir dagar og vonandi erum við komin í burtu frá því en ekki að því er virðist miðað við frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvað það varðar að eðlilegt sé að stjórnmálin séu með puttana í stjórnun og rekstri Ríkisútvarpsins. Það er afar dapurlegt. Dapurlegt er að sjá þessa nýju ríkisstjórn undir forustu ungra manna, hæstv. ráðherra og formanna stjórnarflokkanna, í raun og veru birtast okkur eða flytja boðskap hingað inn sem aftur og aftur í mörgum tilvikum mér finnst færa okkur ein 30 ár aftur í tímann.

Þegar það varð umræðuefni að verulegur kynjahalli væri í skipan nýrrar ríkisstjórnar, hvernig voru viðbrögðin? Hæstv. forsætisráðherra sagði að auðvitað væri það skemmtilegra að hafa sem jöfnust kynjahlutföll, það var málið. Það voru svörin. Það væri skemmtilegra. Mér fannst það ekki nútímalegt, viðbrögðin við því. Menn hefðu heldur heiðarlega viðurkennt að þetta væri miður og þeim þætti það verra og þeir skyldu reyna að bæta úr. Nei, það var ekki. Það var engin iðrun. Það var bara sagt sisvona, það væri skemmtilegra.

Viðhorfin til umhverfisráðuneytisins og umhverfismálanna sem birtast okkur nánast upp á hvern dag með því að gera umhverfisráðuneytið að skúffu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eða þeirri deild innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem í dag fer með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og ýmis ummæli því tengd í framhaldinu, að umhverfisráðuneytið væri jafnvel óþarft, það sé ekki mikilvægasti málaflokkur nútímans og framtíðarinnar — þetta er óskaplega dapurlegt. Maður vaknar upp og manni finnst maður einhvern veginn kominn nokkra áratugi aftur í tímann. Mér finnst það líka vera aftur í þessu máli, að við séum að fara aftur á bak en ekki áfram.

Það sem veldur manni nokkrum ónotum er að við þekkjum mörg hver, sem höfum lengi fylgst með stjórnmálum eða tekið þátt í þeim, arfleifð og sögu þessara tveggja flokka sem nú hafa náð saman og fengið völdin í landinu. Það er helmingaskiptabandalag liðinnar aldar sem er aftur mætt á sviðið. Þá höfðu menn oft tilhneigingu til þess að líta svo á að þeirra væru völdin og það eina sem þetta snerist eiginlega um væri hvernig þeir skiptu þeim á milli sín og því sem af þeim leiddi og passa upp á að hver fengi sitt.

Nú veit ég ekki hvort það hefur verið alveg þannig tekið fyrir í þessu máli milli flokkanna. Kannski er þetta einleikur hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem er ekki hér því miður. Og það væri ákaflega fróðlegt og fleiri hafa nú lýst eftir því, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn blandaði sér aðeins í umræðuna, til dæmis þeir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins sem studdu núverandi skipan mála, greiddu nýju lögunum um Ríkisútvarpið atkvæði sitt. Hvers konar óskapleg sinnaskipti hafa orðið hjá þeim á þremur mánuðum og hvernig fóru þau fram? Hvað hefur gerst? Er sannfæring þeirra allt önnur í dag en hún var fyrir þremur mánuðum þegar þeir studdu, eins og vel flestir þingmenn sem voru viðstaddir og greiddu atkvæði gerðu, þau nýju lög sem nú á að fara að umbylta.

Nú er það þannig með hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem ég hefði nú gjarnan viljað hafa viðstaddan núna, Illugi nokkur Gunnarsson, að þetta mun vera eina málið sem hann leggur fyrir þetta sumarþing. Það eru því greinilega ekki uppi önnur og stærri mál í ráðuneyti hans að hans mati sem brýnna er að hrinda í framkvæmd. Það vekur nokkra undrun mína satt best að segja.

Ég hefði haldið að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þjóðarinnar væri nú með stærri mál einhvers staðar á sinni könnu en það eitt að fara að koma aftur pólitískri handstýringu á Ríkisútvarpið. Er ekkert í skólamálunum hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem hann sér ástæðu til að taka á? Ég hefði haldið það.

Nú er það að vísu svo að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er nokkuð vængstýfður, af honum hafi verið teknar nokkrar fjaðrir satt best að segja. Ætli hann hafi ekki bara áttað sig á því svona um það bil daginn sem hann labbaði inn í ráðuneytið að búið var að reyta nokkrar fjaðrir úr hatti hans og þær færðar yfir í forsætisráðuneytið og stungið þar niður. Það kemur sem sagt á daginn allt í einu að mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem við stofnuðum og gáfum það nafn og vorum stolt af að gera menningunni hátt undir höfði til viðbótar menntunarmálunum í því ráðuneyti, var vængstýft. Af því að hæstv. forsætisráðherra tíndi nokkra konfektmola út úr menningunni og kallaði þjóðmenningu og reytti til sín nokkrar stofnanir, en hann tók ekki Ríkisútvarpið. Það hefur kannski verið yfirsjón, herra forseti. Kannski er það bara þannig að hæstv. forsætisráðherra hefur gleymt að taka Ríkisútvarpið. Ég hefði haldið að það væri þjóðmenning. Annars kann ég engar skilgreiningar á því hver sé munurinn á íslenskri menningu og „þjóðmenningu“. Það væri gagnlegt ef hæstv. forsætisráðherra kæmi einhvern tíma og ætti orðastað við okkur og útskýrði það fyrir okkur.

Það er sem sagt þannig að mati forsætisráðherra að til er eitthvert sérstakt fyrirbæri innan nefndarinnar, eitthvert lag, einhver kassi sem heitir þjóðmenning. Hún er hjá forsætisráðherra en menning að öðru leyti hjá undirráðherranum, menningar- og menntamálaráðherra, hæstv. ráðherra Illuga Gunnarssyni. Kannski er það þess vegna sem hann hefur farið af stað með þetta frumvarp að þarna var merkilegasta menningarstofnunin eftir undir hatti hans að hans mati. En hann fer ekki mjög gæfulega af stað með það, vil ég leyfa mér að segja.

Núverandi fyrirkomulag varðandi yfirstjórn Ríkisútvarpsins sem lögfest var með lögum nr. 23, 20. mars 2013, er að mínu mati alveg ágætislending, enda var um það nokkuð góð samstaða. Það er sem sé þannig að ráðherrann — hann þarf nú ekki að kvarta finnst mér — tilnefnir einn mann sem kjörinn skal á aðalfundi og verður hann sjálfkrafa formaður stjórnar Ríkisútvarpsins. Er það ekki ágætt? Er því þá ekki vel skipað að ráðherrann geti valið sér einhvern trúnaðarmann og hann verður sjálfkrafa formaður stjórnar? Ekki er ráðherrann þá áhrifalaus og ekki er eins og hann hafi ekki tengingu við Ríkisútvarpið í gegnum það ásamt manni til vara.

Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefna samkvæmt hinni nýju skipan annan sjálfstætt skipaða fulltrúann í stjórn Ríkisútvarpsins, og mann til vara, þótt sá hafi að vísu bara málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt á fundum í stjórn. Þetta hefur verið, býður mér í grun, lengi baráttumál starfsmanna Ríkisútvarpsins og félagsskapar þeirra, að hafa eitthvað um sinn vinnustað að segja. Og hér var það leitt í lög.

Það er líka eitthvað til sem heitir vinnustaðalýðræði og hefur kannski ekki verið nógu hátt skrifað á köflum undanfarin ár.

Þá kemur að hinu að ráðherra skipar fimm manns og jafn marga til vara í valnefnd og það á grundvelli tilnefninga frá allsherjar- og menntamálanefnd sem leggur til þrjá, Bandalag íslenskra listamanna einn og samstarfsnefnd háskólastigsins einn. Þessi valnefnd finnur svo hópinn sem myndar stjórn Ríkisútvarpsins að uppfylltum tilteknum hæfniskröfum og allt þar fram eftir götunum.

Teiknaður er upp ágætur rammi um þetta, allt með hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi, að það sé þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja, gætt sé að jafnræði kynjanna í tilnefningum o.s.frv.

Er eitthvað að því fyrirkomulagi? Er eitthvað hættulegt við þetta? Hvað eru menn að forðast? Undan hverju er menn að reyna að koma sér? Ég hef engin almennileg rök heyrt fyrir því að þetta sé ekki ágætisumbúnaður. Enda er það þetta sem menn hafa innleitt núna í lög víða á undanförnum árum í anda þess að standa faglega að þessum málum, leggja faglegar hæfniskröfur til grundvallar og reyna að ýta burtu pólitískum afskiptum.

Nú er það orðið þannig að bundið er í lög mjög víða innan opinberrar stjórnsýslu að valnefndir skuli koma til þegar menn eru ráðnir sem ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar eða í önnur embætti og um þetta eru fyrirmæli í lögum. Lögin um Ríkisútvarpið eru algjörlega í anda þess, þeirrar nútímalegu stjórnsýslu, faglegu stjórnsýslu, sem hefur verið að festast í sessi í lagabreytingum á ýmsum sviðum í lögum um Stjórnarráð Íslands og víðar.

Það standa engin efnisleg rök gegn því að þetta sé ekki ágætt fyrirkomulag. Það er þá eitthvað annað sem mönnum gengur til, eitthvað annað. Auðvitað er augljóst að það er að koma pólitíkinni þar inn aftur. Það er ekkert annað.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn er mættur á sviðið og vill nú fara að deila og drottna, stjórna og koma sínum mönnum að. Það kemur ekki á óvart, okkur sem þekkjum hann og einn aðili var meira að segja svo hreinskilinn fyrir kosningar að hann sýndi aðeins á það hvað væri í vændum eða ætti að vera í vændum. Var það ekki einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins sem skrifaði sérstaklega um nauðsyn hreinsana þegar þeir yrðu komnir við völd. Þá skyldi sko heldur betur hreinsað út, þar á meðal þetta vinstra lið, vinstri mennirnir, ef einhverjir kynnu að vera enn inni á Ríkisútvarpinu. Hér er það allt að ganga eftir, bara eftir bókinni.

Þetta er ósköp einfalt. Bláa höndin er komin á loft. Bláa höndin er komin aftur á loft, herra forseti, og núna er hún því miður á bak við völdin aftur. Hún er ekki bara veifandi uppi í Hádegismóum eða einhvers staðar annars staðar, nei hún er komin bak við ráðuneytin, bláa höndin. Og við sjáum boðskapinn ganga út í efni af þessu tagi.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, það leggst lítið fyrir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarsson, að hann á sínum fyrstu dögum í ráðherraembætti skuli gerast skósveinn þeirra sjónarmiða og eiga það eina erindi við Alþingi Íslendinga á fyrsta þinginu sem hann mætir til sem ráðherra að leggja fram þetta frumvarp. Það leggst lítið fyrir hann. Það er ekki reisn yfir því satt best að segja.

Ég hef nú frekar bundið vonir við hæstv. ráðherra Illuga Gunnarsson sem vel upp alinn og sérstaklega vel ættaðan ungan mann, að hann mundi nú frekar verða til bóta í pólitíkinni og í sínum flokki heldur en hitt, enda þarf kannski ekki mikið til. En ég verð að segja alveg eins og er að það eru talsverð vonbrigði að sjá ýmislegt sem hæstv. ráðherra lætur sig hafa á fyrstu dögum og vikum í embætti, eins og skipan í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem boðar nú ekki gott. Ef það er hugmyndafræðin, ef það er andinn á bak við þetta, hvernig verður þá stjórnin hjá RÚV að því marki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur afl til ef hann kemur þessu fram? Verður það inntökuskilyrði að menn hafi starfað í SUS eða Heimdalli? Að menn séu alveg útlærðir í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins og þá sé þeim treystandi til að fara kannski inn í stjórn Ríkisútvarpsins? Ja, það skyldi nú ekki vera? Það er alla vega greinilega inntökuprófið sem menn verða að standast ef þeir eiga að fá að setjast í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem hæstv. ráðherra fór með þetta mörg ár aftur í tímann, áratugi, með því að skipa með alveg dæmalausum hætti einlita flokkshjörð í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Það er auðvitað algjörlega fráleitt að vera að eyða tíma í þetta, virðulegur forseti, nú á þessu sumarþingi. Ég spyr, er það virkilega svo að hæstv. ríkisstjórn hafi sett þetta þannig í forgang að málið skuli afgreiða hvað sem það kostar og jafnvel á kostnað annarra mála, ef til dæmis væri nú komið fram hér eitt einasta frumvarp sem varðaði hagsmuni almennings í landinu, nema þá með neikvæðum hætti, sem er ekki enn? Öll frumvörp frá ríkisstjórninni enn þá eru greiðasemi við stórvini þeirra, útgerðarmenn, ferðaþjónustuna eða aðra slíka aðila. Við sjáum enn ekkert á borðum sem tengist öldruðum, öryrkjum eða hagsmunum heimilanna almennt nema nefndir, tillögu um að setja allan loforðapakkann í nefnd. Mundi ríkisstjórnin láta þetta ganga framar? Er þetta svoleiðis forgangsmál? Er Framsóknarflokkurinn sammála því að þetta sé eitt af allra brýnustu málum á Íslandi í dag, þ.e. að koma pólitískri stjórn aftur yfir Ríkisútvarpið?

Síðan er það, herra forseti, að ef menn létu sér detta í hug að gera þetta svona þá er þetta frumvarp auðvitað alveg út úr korti vegna þess að að mínu mati yrði að breyta aftur verulega skilgreiningunni á hlutverki stjórnar Ríkisútvarpsins. Hún er eins og hún er í gildandi lögum með hliðsjón af því að þarna kæmi til fagleg ópólitísk stjórn. Og skilgreininguna á hlutverki stjórnar Ríkisútvarpsins þarf auðvitað að móta í samræmi við það hvernig sú stjórn er skipuð, hvort hún er pólitísk eða fagleg. Ef stjórnin er pólitísk á hún þá að vera með puttana alveg á bólakafi í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins? Viljum við það? Nei, ætli það.

Það má auðvitað tína til einhver rök fyrir því að Ríkisútvarpið sé opinber rekstur, þ.e. menn geti séð fyrir sér að þar eigi að koma einhvers konar pólitískt skipuð stjórn. Að mínu mati á það þá bara að vera stjórn sem hefur rekstrarábyrgðina en er ekki í stefnumótuninni, ekki í dagskrárgerðinni og getur ekki verið með puttana ofan í því sem verður að tryggja að sé óháð og faglegt ef ríkisútvarp á að geta staðið undir nafni. Það er algerlega nauðsynlegt.

Gallinn yrði að vísu alltaf sá eins og dæmin sanna að sú stjórn, pólitískt kjörin stjórn, mundi ráða yfirmenn Ríkisútvarpsins. Það er einn stóri kosturinn við það að fara í burtu frá því fyrirkomulagi, setja alfarið á fót faglega skipaða stjórn tilnefnda af óháðri valnefnd, þar með er líka fyrir því séð að pólitíkin kemst ekki að því þegar verið er að ráða yfirmenn stofnunarinnar.

Ef við skoðum aðeins í framhaldi af ákvæðum 9. gr., um stjórn Ríkisútvarpsins, 10. gr., um starfssvið stjórnarinnar, þá er það í núgildandi lögum, og þeim sem eru að koma til framkvæma og mundu í næsta mánuði leiða til þess að valnefnd yrði skipuð og færi að undirbúa tilnefningu í nýja stjórn Ríkisútvarpsins fyrir næsta aðalfund, að stjórninni er ætlað mjög veigamikið hlutverk. En það er auðvitað að sjálfsögðu í samhengi við það hvernig hún er skipuð.

Stjórn Ríkisútvarpsins fer með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið, að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlun í almannaþágu séu uppfyllt. Stjórnin á að hafa eftirlit frá þeirri hlið með því að Ríkisútvarpið efni samninginn sem menntamálaráðherra, ef ég kann rétt, gerir fyrir hönd stjórnvalda um framlag Ríkisútvarpsins og þjónustu á sviði almannaútvarps og öryggismála.

Síðan er starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins látið taka sérstaklega til eftirfarandi þátta í starfi þess. Það er talið upp í átta töluliðum:

Að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma. Viljum við að pólitískt kjörin stjórn skuli alfarið vera í því að móta dagskrárstefnuna?

Að staðfesta skipurit. Látum það nú vera. Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum. Akkúrat það sem ég nefndi áðan. Það skiptir máli hvernig stjórnin er samansett gagnvart því hvort pólitíkin kemur að því borði þegar útvarpsstjóri er ráðinn. Tölum bara mannamál um þetta.

Engin trygging er fyrir því að útvarpið verði nægjanlega óháð og hafið yfir gagnrýni um hlutdrægni og annað því um líkt ef pólitísk stjórn kemur aftur til sögunnar og hún hefur það hlutverk að ráða útvarpsstjóra eða aðra æðstu yfirmenn eins og dæmin sanna, ef það er á pólitískum forsendum. Það er ekki langt um liðið, er það, síðan átti að gera ótrúlega hluti. Eru menn búnir að gleyma því hvers konar ofboðslega pólitískar ráðningar stóðu til inn á Ríkisútvarpið? Gengu að vísu til baka, það var brotið á bak aftur, menn urðu að gefast upp. Ég ætla ekki að nefna nöfnin hérna, en ég held að allir geti fljótlega rifjað það upp hvað stóð til að gera þá á grundvelli þess að pólitísk stjórn var yfir Ríkisútvarpinu. Það er þetta meðal annars sem við viljum koma í burtu.

Síðan hefur stjórnin það hlutverk að taka ákvörðun um lán og ábyrgðir vegna Ríkisútvarpsins sem eðlilegt er úr því hún er rekstrarlega ábyrg.

Að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna. Þetta er mikilvægt ákvæði. Stjórninni er falið frumkvæðisvald ef henni svo býður. Þessi ákvæði, ef ég veit rétt, eru styrkt frá eldri ákvæðum sem áður giltu, enda varð það niðurstaðan að mínu mati að stjórn Ríkisútvarpsins á umliðnum árum var of passíf. Kannski taldi hún sig ekki hafa nægjanlega sterka stöðu í lögum til að beita sér í vissum efnum.

Að fylgjast með starfsemi Ríkisútvarpsins. Við áttum talsverð samskipti við Ríkisútvarpið, ég sem fjármálaráðherra á þeim árum þegar óhjákvæmilegt var að Ríkisútvarpið sparaði og hagræddi í rekstri eins og allur annar opinber rekstur í landinu, og það gekk nú dálítið á satt best að segja. Útvarpsstjóri var ekki alltaf hrifinn á aðalfundi Ríkisútvarpsins og ársskýrslur voru nokkuð skrautlegir pappírar á þeim árum af því að Ríkisútvarpið hafði vissa tilhneigingu til að líta svo á að það væri ríki í ríkinu og ekki mætti koma nálægt því og það ætti bara að vera yfir það hafið að hagræða í sínum rekstri eins og aðrir. Það varð nú ekki niðurstaðan. Þá reyndi dálítið á hlutverkaskiptin, stöðu útvarpsstjóra annars vegar og verkefni stjórnarinnar hins vegar. Mín upplifun af þeim samskiptum og ýmsum fleirum var sú að stjórnin teldi sig vera í óþarflega veikri stöðu þarna innan búðar. Það á ekki að vera samkvæmt þessu. Hér er mjög vel um það búið að þessi faglega skipaða stjórn hefur sterka stöðu gagnvart þeim verkefnum og því hlutverki sem hún á að sinna.

Að fylgjast með rekstri Ríkisútvarpsins og samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.

Að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundna skyldu Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Og að síðustu má nánar kveða á um hlutverk stjórnar í samþykktum Ríkisútvarpsins, samanber lög um hlutafélög með síðari breytingum. Það er því hægt að fylla inn í þetta með samþykktum útvarpsins og með stoð í hlutafélagalögum, þá er horft til venjulegs hlutverks stjórnar í hlutafélögum, enda Ríkisútvarpið opinbert hlutafélag eins og kunnugt er.

Herra forseti. Þetta tel ég að vanti upp á að málið sé reifað með eðlilegum hætti og þess vegna kemur það mjög á óvart að hæstv. ráðherra skuli flytja þetta rýra frumvarp, ekki er mikill rökstuðningur í því satt best að segja. Og ekkert er fjallað, að ég fæ séð, um það hvert sé eðlilegt hlutverk stjórnarinnar og staða ef skipan hennar er breytt og horfið aftur til gamalla tíma og hún skipuð pólitískt.

Nú sé ég, virðulegur forseti, að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er kominn til þings. Hann situr úti í horni í hliðarherbergi. Hann hefur ekki sést inni í þingsalnum enn þá. Ég á nokkrar mínútur eftir af ræðutíma mínum og mér væri alveg sérstakur heiður og sómi að því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, kæmi í salinn og settist í sæti sitt þannig að ég gæti lagt fyrir hann spurningar og kannski endurtekið því miður sumt af því sem ég sagði þegar ég fjallaði um málið í byrjun ræðu minnar í fjarveru hans.

Fyrsta spurningin og sú sem brennur á vörum okkar og margir hv. þingmenn hafa borið upp hér í dag er sú: Af hverju þetta frumvarp núna á stuttu sumarþingi sem átti að vera? Vill hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson — þótt hann fari nú orðið ekki nema með hluta af menningunni, þ.e. hann fer með menningarmálaráðherra í annarri deild, fyrsta deildin er komin í forsætisráðuneytið, hin virðulega þjóðmenning — útlista fyrir okkur hvernig hann sem hæstv. ráðherra og ráðuneytið komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri brýnasta viðfangsefnið í mennta- og menningarmálum þjóðarinnar og ætti erindi fyrir þetta sumarþing? Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sé afgerandi mikilvægt að fá þetta mál afgreitt?

Í öðru lagi: Telur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, ef yrði nú látið að vilja hans og pólitískri stjórn komið aftur yfir Ríkisútvarpið, að þá gangi að hafa 10. gr. laganna óbreytta? Er ekki augljóst mál að endurskoða þurfi stöðu og hlutverk stjórnarinnar í ljósi þess að hún verður þá allt öðruvísi skipuð pólitískt og þá er ekki við hæfi að hún sé með inngrip í vissa þætti starfsemi Ríkisútvarpsins, eins og við gætum sætt okkur við og teljum eðlilegt ef þetta er faglega skipuð stjórn? Ég nefndi þar sérstaklega dagskrármálin og stefnumótun og aðra slíka þætti.

Ef hæstv. ráðherra skyldi taka til máls og halda lengri ræður er náttúrlega nærtækt að spyrja hann í þriðja lagi: Hvernig hugsar sér hæstv. ráðherra að mæta þó ekki nema í litlu væri kröfunni um að stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu væru eftir sem áður faglega skipaðir?

Á það að vera virkilega þannig að kjósa megi hverja sem er án nokkurra hæfniskrafna þar inn? Ýtast þá út ákvæði 3. og 4. mgr.? Eftir stendur auðvitað það ákvæði sem hvort sem er verður að uppfylla hæfi samkvæmt hlutafélagalögum, að sjálfsögðu er ekki hægt að ýta því í burtu. En öll leiðsögn um að menn skuli hafa einhverja reynslu og þekkingu á sviði fjölmiðlunar, menningar, hvað varðar nýja miðla og annað því um líkt fellur fyrir borð. Það eina sem þarf er að finna einhverja viðskiptafræðinga og lögfræðinga sem geta setið í stjórnum hvaða hlutafélags sem er. Það er talsvert af þeim til dæmis í SUS og Heimdalli. Eigum við að búa okkur undir það að það verði fulltrúar stjórnarflokkanna, það verði inntökuskilyrðið að menn hafi verið innarlega í trúnaðarmannahópi flokksstofnana Sjálfstæðisflokksins, eins og virðist vera aðgöngumiðinn að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Þetta vekur satt best að segja heldur ónotaleg hugrenningatengsl við liðna tíma. Mér finnst það dapurlegt eins og ég sagði, ég veit ekki hvort hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var kominn þá til leiks. Mér finnst þetta dapurleg byrjun hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ég ætlaðist til meira af honum en að vera boðberi fyrir slíkan málstað, þau sjónarmið, á Alþingi Íslendinga. Þetta sé það eina sem hann hafi fram að færa á sínu fyrsta þingi sem hann mætir til sem virðulegur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Ég tók mér það orð í munn að bláa höndin væri mætt aftur til leiks, hún væri komin á loft, þetta væri í hennar anda og munurinn aðeins sá að nú er bláa höndin komin á bak við völdin í landinu en væri ekki að veifa einhvers staðar úti í móum.

Framsóknarflokkurinn, kannski vill hæstv. ráðherra upplýsa okkur um hvernig samstarfinu og samskiptunum við Framsóknarflokkinn var háttað á undirbúningsskeiði málsins. Það hefur vakið undrun margra hér að Framsóknarflokkurinn studdi gildandi lög, þar á meðal tveir hæstv. ráðherrar, ef ég veit rétt, greiddu þeim atkvæði sín. Það var ekki tiltakanlega mikil andstaða við málið. Hjásetur einhverjar, örfá mótatkvæði. Tiltölulega breið samstaða var að lokum um þá skipan mála sem hin nýju lög bera með sér.

Þess vegna kemur mörgum á óvart að Framsóknarflokkurinn skuli standa að því með hæstv. menntamálaráðherra að leggja þetta fram sem stjórnarfrumvarp og skrifa væntanlega þar með líka upp á mikilvægi málsins, sem er svona gríðarlegt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur valið að hafa það sitt eina mál á þessu þingi. Kannski getur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra upplýst okkur eitthvað um þetta áður en umræðunni lýkur.

Þó að ég viðurkenni vel, forseti, að það sé aðeins úti á jaðrinum og varði kannski ekki beinlínis þetta frumvarp þá er nú talsvert svigrúm í því þegar á annað borð eru hafnar umræður til dæmis um menningartengd mál eins og þetta auðvitað er. Ég hefði óskaplega gaman af því að heyra hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ræða aðeins um þjóðmenninguna og þá skilgreiningu sem er mér nokkuð ný, að til sé tvenns konar menning í landinu, annars vegar þjóðmenning og hins vegar almenn menning. Hæstv. forsætisráðherra virðist hafa tekið sér það húsbóndavald að ákveða hvað sé hvað.

Þess vegna undraðist ég að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki taka Ríkisútvarpið undir sig sem eina af kjarnastofnunum þjóðmenningar í landinu, ef hún er eitthvað nálægt því sem ég ímyndað mér að hæstv. ráðherra sé að tala um. Úr því það er til dæmis stofnun Árna Magnússonar, handritin og sagan og fræðin sem þar eru. Þjóðminjasafnið, er það ekki? Það var líka reytt úr hatti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það voru allmargar fjaðrir sem fóru þarna í forsetaúrskurðinum. Af hverju þá ekki Ríkisútvarpið? Er það ekki ein af lykilmenningarstofnunum þjóðarinnar? Eða líta menn einhvern veginn öðruvísi á það?

Ég veit að ýmsir hafa haft á því áhuga að reyta af því fjaðrirnar líka og reka bara eina rás og sem allra minnst og ýta hinu út í einkarekna fjölmiðla. Það hefur verið afstaða Sjálfstæðisflokksins, er það ekki? að slá Rás 2 af og reyna að reyta það af Ríkisútvarpinu sem hefur meðal annars breikkað grundvöll þess og gert það að verkum að það er enn meira þjóðarútvarp og almenningsútvarp en það ella væri. Eins og það er í dag þá er mjög vel um það búið í lögum að ég tel. Ég las í byrjun umræðunnar fyrstu markmiðsgrein laganna sem ég tel mjög vel orðaða. Hún mundi sóma sér mjög vel í þessari þjóðmenningarelítudeild hæstv. forsætisráðherra að mér sýnist, með Árnastofnun og Þjóðminjasafninu og öðru slíku.

Hvað segir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þetta? Hvernig lítur hann á Ríkisútvarpið? Er hann í grunninn sammála til dæmis skilgreiningunni sem 1. gr. laganna ber með sér? Hæstv. ráðherra leggur ekki til breytingar á henni. Þá skulum við ætla að hann sé sæmilega sáttur við hana. Þar er talað um félagslega samheldni í íslensku samfélagi og mjög margt fleira gott sem Ríkisútvarpið á að reyna að tryggja eftir því sem það framast getur.

Mikilvægt er að við reynum að standa eins vel saman um Ríkisútvarpið og mögulegt er. Það á stóran sess í hjarta okkar flestra geri ég ráð fyrir. Þess vegna er ekki gott að byrja þessa vegferð svona eins og hæstv. ráðherra er hér að lenda í. Kannski hefur hæstv. ráðherra ekki áttað sig á að hann mundi lenda í mótbyr með málið. Kannski hefur hann ekki áttað sig á að því yrði tekið eins og því hefur verið tekið, að nánast enginn umsagnaraðili hefur mælt því bót. Mér skilst á þeim nefndarmönnum sem hafa unnið að málinu að nánast allar umsagnir sem borist hafa séu neikvæðar, almenn og mikil andstaða sé við það að fara til baka. Menn vilja ekki ganga á vit fortíðarinnar, herra forseti, ef ég má svo segja við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ekki tilbúinn til að endurskoða málið? Er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ekki tilbúinn til að brjóta í blað og vera maður að meiri og doka við úr því að þetta fær svona viðtökur og vera ekki að eyða dýrmætum tíma sumarþingsins í að sarga á þessu. Það er ekki góð byrjun upp á samstöðu um Ríkisútvarpið og almenna samstöðu hér innan veggja þingsins. Menn lögðu mikið á sig og það var virkilega reynt að ná eins breiðri samstöðu um grunninn sem við nú stöndum á varðandi Ríkisútvarpið samanber þann langa aðdraganda sem þau mál áttu, viðamikið starf í faglegum og þverpólitískum nefndum og mikla viðleitni til þess innan þingsins að reyna að ná málunum saman og tókst allbærilega eins og sést á því að að lokum var ekki tiltakanlega mikil andstaða við nýju lögin um Ríkisútvarpið, fjögur mótatkvæði, eitthvað svoleiðis. Það telst nú ekki slæmt.

Þingmenn úr öllum flokkum, nema kannski Sjálfstæðisflokknum, studdu málið og stærstur hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins sat hjá. Það var ekki eins og það væri afgreitt í miklum átökum eða ágreiningi.

Við erum klárlega að fara aftur á bak núna í ljósi þess að umsagnaraðilar hafa lagst gegn málinu, í ljósi þess að allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar skila neikvæðum (Forseti hringir.) umsögnum um málið í nefndarálitum. Því er lokaspurningin til hæstv. ráðherra: Er hann ekki tilbúinn til að bíða með málið, skoða hug sinn og (Forseti hringir.) að alla vega megi geyma það til haustsins?