142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

orkuverð til álvers í Helguvík.

[15:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig fýsir að eiga orðastað við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í framhaldi af gagnmerku viðtali sem tekið var við Júlíus Jónsson, forstjóra HS Orku, í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag. Þar kveður forstjórinn nokkuð afdráttarlaust upp úr um að það sem komi í veg fyrir að samningar takist um raforkusölu til álvers í Helguvík af þeirra hálfu sé einfaldlega að efnahagslegar forsendur séu ekki til staðar. Með leyfi forseta, segir í viðtalinu:

„Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800–1.900 bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp. Miðað við það sem þeir eru viljugir til að greiða fyrir orkuna þá gengur það ekki upp hjá okkur og miðað við það sem við þurfum að fá greitt þá gengur það ekki upp hjá þeim.“

Síðar í viðtalinu segir:

„Þetta er kaldi veruleikinn sem við erum að fást við og spár um álverð gefa ekki til kynna að það muni hækka að raunvirði í nánustu framtíð.“

Nú hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra oft á umliðnum mánuðum og missirum reynt að kenna hinum og þessum aðilum um, þar á meðal fyrrverandi ríkisstjórn eða bara eiginlega hverjum sem er öðrum en málsaðilum sjálfum. Ég spyr þar af leiðandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra: Þarf frekari vitna við? Má þá búast við því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hætti þessum umkenningaleik sínum, horfist í augu við veruleikann og þann skýra vitnisburð sem hér kemur fram frá öðrum aðalaðila málsins, þ.e. forstjóra orkufyrirtækisins sem átti að vera í móðurhlutverki við að færa þessu álveri orku. Það eru ekki efnahagslegar forsendur miðað við núverandi ástand mála í heiminum og núverandi álverð til að ná þessum endum saman. Ætlar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að horfast í augu við þennan veruleika og hætta að kenna einhverju öðru um?