142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

orkuverð til álvers í Helguvík.

[15:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er rétt að í beinu framhaldi stendur þetta í viðtalinu: „En viðræður eiga sér enn stað.“

Reyndar er einnig fjallað um það í viðtalinu af hálfu forstjórans hve mikilvægt sé að fá botn í þetta mál, m.a. vegna þess að fyrirtækið situr fast í þessum gömlu óbrúklegu samningum með genginn gerðardóm á bakinu en að vísu fyrirvara á móti í þessum samningum og getur þar af leiðandi ekki rætt við aðra áhugasama kaupendur sem kynnu að vera tilbúnir til að borga mun betur fyrir orkuna.

Er þessi vitnisburður ekki líka til umhugsunar fyrir okkur hv. þingmenn? Hér sannast það sem allir vita að álverin eru alls staðar í heiminum á höttum eftir lægsta raforkuverði sem býðst. Þau eru síst samkeppnisfær vegna þess hversu orkufrek þau eru sem starfsemi. Þetta er skýr vitnisburður um þær áherslur að horfa frekar til nýrra iðngreina sem geta greitt mun hærra verð fyrir orkuna og þurfa minna magn í einu. Ég vil hrósa forstjóra HS Orku fyrir hreinskilnina. Það er vel gert að skafa ekkert utan af hlutunum og koma til dyranna eins og hann er klæddur hvað þetta snertir.

Mér finnst að hæstv. (Forseti hringir.) iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti bara að viðurkenna það eins og það er en ekki vera að snúa út úr því.