142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umsagna var leitað hjá hv. atvinnuveganefnd en ekki hv. fjárlaganefnd. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig standi á því en ríkissjóður verður með frumvarpinu af tekjum, 500 millj. kr. er áætlað á þessu ári og 1,5 milljörðum á því næsta. Jafnframt er í nefndaráliti meiri hlutans talað um undanskot og eru erlendir starfsmenn sérstaklega nefndir, þ.e. áhyggjur af því að innlendir starfsmenn fái ekki vinnu vegna þess að erlendir starfsmenn séu í svartri vinnu. Mér finnst þetta forvitnilegt og ég vil gjarnan fá að heyra rökin fyrir þessu og hvort það eru þá eingöngu erlendir starfsmenn sem eru í svartri vinnu innan ferðaþjónustunnar.

Ég tek eftir því að í umsögnum frá atvinnuveganefnd fara menn ekki yfir áhyggjur af því að hótelum er að fjölga mjög mikið bæði á höfuðborgarsvæðinu og eins víða um land. Hafa menn ekki áhyggjur af vexti þessarar greinar? Nú höfum við Íslendingar reynslu af því að vöxtur greina hefur farið illa með okkur. Ég spyr hv. þingmann hvort ekki hafi verið farið yfir það í nefndinni að huga þurfi að þessari umgjörð og hvort mikilvægt sé að ýta undir vöxt hennar — vöxtur hennar hefur umtalsverðan kostnað í för með sér líka — og hvenær menn telja að ívilnanir séu ekki lengur þarfar vegna þess að greinin hafi í raun stækkað nægilega mikið og ekki þurfi að ýta undir vöxt hennar.