142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekki kom fram beiðni um það í nefndinni að leita umsagnar hv. fjárlaganefndar en ég hefði talið það eðlilegt að fenginni ábendingu frá hv. þingmanni. Það hefði komið til álita að fá álit hv. fjárlaganefndar en ekki kom fram beiðni um það.

Hvað varðar áhyggjur af vexti þá hefur ferðaþjónustan vaxið alveg gífurlega undanfarin ár. Ég hef þakkað það tveimur eldgosum sem negldu fólk niður á flugvöllum um allan heim, og því gleymir það ekki. Þar með er Ísland orðið ævarandi greypt í huga viðkomandi aðila. Það er orðið nafn.

Ferðamönnum hefur fjölgað um 100 þúsund í tvö ár, 2011 og 2012, hvort árið um sig. Því var velt upp í hv. nefnd hvaða mannskapur væri í því að búa um rúmið fyrir allt þetta fólk, elda fyrir það, þrífa eftir það, leiðsegja því o.s.frv. Menn söknuðu þess að sjá hvergi auglýst eftir starfsfólki í þessari grein, veltu vöngum yfir því. Einhverjar vísbendingar voru um það, sem vísað er í í nefndarálitinu, að hugsanlega væri svört atvinnustarfsemi þarna í auknum mæli og einnig að kjarasamningar væru ekki virtir.

Ég tel mjög brýnt að þetta verði skoðað. Við búum við það að fjöldi Íslendinga og erlendra aðila sem hér hafa unnið gengur um atvinnulaus og fær ekki vinnu. Í því ljósi er dálítið ankannalegt að sjá hvergi auglýst eftir fólki til að sjá um þennan aukna fjölda ferðamanna — hún telur um 100 þúsund hvort árið um sig, bara aukningin.