142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu nema þetta skot á mig að mér þyki eitthvað vænt um peninga. Mér þykir ekkert vænt um peninga, ekkert frekar en hv. þingmanni, sem gein yfir ríkiskassanum í mörg ár, þótti vænt um peninga.

Vissulega þurfum við að stefna að því að fá inn betur borgandi ferðamenn og við þurfum að gera það þannig að það dreifist meira yfir árið, sérstaklega út á landsbyggðina því að hún fer halloka í þessari miklu aukningu.

Hv. þingmaður talaði um að afla tekna annars staðar. Einmitt, með því að stækka kökuna. Með því að stækka kökuna ætlum við að afla tekna annars staðar.

Hv. þingmaður talaði eitthvað um fjárlög og hann var jú hæstv. fjármálaráðherra á tímabili. Ég fékk svar frá fjármálaráðherra um stöðu ríkissjóðs. Árið 2009 var hallinn á ríkissjóði, þ.e. ríkisreikningur umfram heimildir, 10,2 milljarðar. Árið 2010 var hv. þingmaður hæstv. fjármálaráðherra, minnir mig, þá var hallinn umfram fjárheimildir 42 milljarðar. Árið 2011 var ríkisreikningur 48 milljörðum hærri en heimildir. Samanlagt 110 milljarðar á þrem árum sem ríkisreikningur var umfram heimildir, þ.e. fjárlög og fjáraukalög.

Hvað þýðir það að vera að setja fjárlög sem líta vel út ef ekkert er farið eftir þeim? Hvað þýðir það eiginlega að vera að koma með eitthvert fallegt plagg og svo sýnir ríkisreikningur bara eitthvað allt annað? Ég gef lítið fyrir svoleiðis sparsemi.