142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú leiðrétta rangfærslu hjá hv. þingmanni; Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einn við völd fyrir hrun. Samfylking var það líka og á tímabili Framsókn þar áður, [Hlátur í þingsal.] þannig að það er bara röng söguskýring.

Brauðmolahagfræðin gengur ekki út á þetta. Hún gengur út á það að þegar hátekjumenn eru ekki skattaðir mun arðurinn af tekjum þeirra hríslast niður. Það er brauðmolahagfræði.

Það sem við erum að tala um er svokölluð Laffer-áhrif, þ.e. þegar skatturinn er orðinn of hár þá kunna tekjur ríkissjóðs að lækka. Og ég held að hæstv. síðasta ríkisstjórn hafi gert mikil mistök í því að láta sér detta í hug að skattleggja þjóðina út úr kreppunni og hruninu og skera niður á sama tíma þegar enga atvinnu var að fá neins staðar. Þegar menn skera niður hjá ríkinu þýðir það að það þarf að segja upp fólki og því miður var aðallega konum sagt upp. Hvert skyldi nú fólkið fara þegar enga vinnu er að fá neins staðar? Það fer annaðhvort til útlanda eða á atvinnuleysisbætur hjá ríkinu.

Fyrst þarf því að stækka kökuna og ég held að það hafi fáum dottið í hug að hægt að skattleggja fyrirtæki og einstaklinga, sem eru löskuð, úr kreppunni, enda er allt saman í frosti. Það eru allar fjárfestingar í algjöru lágmarki, allt er í frosti, og ég ætla að vona að hv. þingmaður sé ekki að guma sig af því að hafa sett allt í frost.