142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Mér fannst full ástæða til að mótmæla fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili um að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu upp í 25,5% með mjög skömmum fyrirvara. Það gerðum við hv. þm. Róbert Marshall á sínum tíma og lýstum yfir andstöðu okkar við þær fyrirætlanir með þeim rökum í fyrsta lagi að fyrirvarinn væri of lítill. Ferðaþjónustan eins og þá kom fram gefur út sín verð með allnokkrum fyrirvara. Það var áætlað að hækkunin upp í 25,5% tæki gildi 1. maí síðastliðinn og það var einfaldlega of lítill fyrirvari. Svo gerðum við líka þá athugasemd að okkur þætti of bratt farið og þetta væri of hátt skatthlutfall miðað við skatthlutfall á sambærilegri þjónustu í nágrannalöndum.

Niðurstaðan af þessu öllu var sú að farið var með skattþrepið niður í 14% á gistiþjónustu og ákveðið að það tæki gildi 1. september næstkomandi, sem er miklu skaplegra, en þá er háannatíminn að mestu leyti genginn yfir.

Ég taldi satt að segja þegar þessi varð niðurstaðan að þokkaleg sátt ríkti um þetta. Þetta væri hóflegur skattur og mundi þó skila á þessu ári, eins og skrifstofa opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu áætlar, um 500 milljónum á þessu ári og 1,5 milljörðum á því næsta. Þetta væri ásættanleg lending, enda varð ég ekki var við að margir gerðu athugasemdir við hana.

Engu að síður, vegna þess að ég hef skilning á því að umhverfi í ferðaþjónustu þurfi að vera samkeppnishæft við nágrannaþjóðir og fara þurfi varlega í þessum efnum, fór ég í nefndarstarfið hvað þetta frumvarp varðar með opnum huga og óskrifað blað í afstöðu minni eins og ég tel að maður eigi helst að gera þegar nefndarstarf er annars vegar. Halda sig kannski til hlés í 1. umr. og fara svo í nefndarstarfið og heyra rök og sjónarmið.

Ég var fyllilega reiðubúinn að heyra góð og gild rök fyrir því að hætta ætti við hækkun á virðisaukaskatti upp í 14%, en ég heyrði engin slík. Mér fannst rökin ekki góð. Mér fannst þau ekki koma skýrt fram. Ég var ekki var við að nokkur kæmi fyrir nefndina og segði að það mundi ráða úrslitum um uppgang ferðaþjónustunnar á komandi árum sem vaxandi atvinnugreinar og undirstöðuatvinnugreinar í íslensku þjóðfélagi ef virðisaukaskattsþrepið á gistiþjónustu yrði 14%. Ég heyrði ekkert slíkt. Það sjónarmið sem þó var reynt að halda fram um að hækkunin mundi hafa teljandi áhrif á fjölda ferðamanna var ekkert sérstaklega sannfærandi. Ég sá aldrei neina sannfærandi útreikninga um það. Ég heyrði engan sannfærandi málflutning um að ferðaþjónustan, gistiþjónustan, gæti ekki borið þessa hækkun.

Ég átti því ekki auðvelt með að sjá skýr rök fyrir frumvarpinu. Og þá verður maður einfaldlega að horfa á tekjurnar sem hér liggja undir. Við erum að reka ríkissjóð. Er bara allt í lagi að verða af 500 milljónum á þessu ári að óþörfu? Erum við í þeirri stöðu að það sé líka allt í lagi að verða af 1,5 milljörðum á næsta ári og líka á þarnæsta?

Við erum að tala um alls konar svona tölur þegar við tökum fjárlög til umfjöllunar. Þá vantar nú aldeilis 100 milljónir þar í heilbrigðisstofnanir, 50 milljónir í menntastofnanir, 250 milljónir — tölur af þessari stærðargráðu. Mun okkur finnast þá allt í lagi að hafa orðið af 500 milljónum á þessu ári, 1,5 milljörðum á því næsta? Hvað ef vaxtastig á erlendum skuldbindingum ríkissjóðs breytist t.d. á neikvæðan hátt, mun okkur þá finnast allt í lagi að hafa gefið þetta eftir til ferðaþjónustunnar? Nei, held ég, alls ekki. Við eigum ekki að fara í svona aðgerðir nema með veigamiklum rökum. Þau eru ekki fyrir hendi.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála segir að ekki séu fyrirliggjandi neinar aðgerðir eða áætlanir um það hvernig eigi að ná þessum tekjum öðruvísi. Það finnst mér einfaldlega vera dómur yfir þessu frumvarpi.

Ég lagði reyndar til á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að málið færi í umsögn til fjárlaganefndar. Mér fyndist að það væri ágætisregla þegar um er að ræða að minnka tekjur ríkissjóðs, vegna þess að það er fjárlaganefnd sem þarf að takast á við gatið sem hér myndast, en nefndarmönnum fannst ekki ástæða til þess.

Hins vegar er sagt í greinargerðinni frekar óljósum orðum að mögulega muni aukin umsvif stoppa upp í gatið. Mér finnst rökin fyrir því ekki sannfærandi en þau eru að 7% virðisaukaskattur hafi mikil áhrif á eftirspurnina til aukningar og ef við færum upp í 14% yrðu umsvifin minni og fjölgun ferðamanna yrði minni.

Mér finnst þetta ósannfærandi miðað við útreikninga á því hvað kostnaður við gistingu er lítill hluti af kostnaði ferðamanna við ferð til Íslands yfir höfuð. Hann er eitthvað um 10%. Eins og komið hefur fram áður í máli þingmanns mun þessi hækkun á virðisaukaskattsstigi hækka að jafnaði verð ferðar til Íslands um 1%. Þetta er kannski munurinn á 21.400 kr. og 22.800 kr. á verði á gistingu yfir nótt.

Mér finnst ekkert hafa komið fram í vinnu nefndarinnar sem sýnir fram á að þessi tiltekna hækkun — það geta líka verið alls konar aðrar hækkanir á verði þjónustu og það geta verið sveiflur í gengi krónunnar — úr 7% í 14% muni hafa það umtalsverð áhrif á fjölgun ferðamanna á komandi árum að taka beri það með í reikninginn. Ég sá enga sannfærandi útreikninga á því.

Reyndar bendir ýmislegt til að þessi hækkun á virðisaukaskatti muni ekki hafa nein teljandi áhrif. Fyrir liggur skýrsla Hagfræðistofnunar sem bendir til þess að hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu hafi ekki teljandi áhrif á fjölgun ferðamanna. Síðan sýnir reynslan okkur eitt. Krónan styrktist mjög á ákveðnu tímabili með tilheyrandi verðlagshækkunum fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Samt fjölgaði ferðamönnum umtalsvert.

Vissulega hefur innlent verðlag áhrif, en það virðist ekki vera svo ríkur þáttur í ákvörðun erlendra ferðamanna um að koma til Íslands að við þurfum að hafa áhyggjur af þessu, enda sýna kannanir að erlendir ferðamenn koma hingað fyrst og fremst til þess að njóta náttúrunnar.

Síðan ber líka að geta þess að krónan hefur veikst á undanförnum árum, að sama skapi ætti því að vera svigrúm til hækkunar af þessu tagi á gistiþjónustu, vegna þess að Ísland er ódýrara yfir höfuð fyrir erlenda ferðamenn.

Síðan er það þetta með að stækka kökuna. Það er á einhvern hátt yfirlýst markmið eða grundvöllur frumvarpsins að með því að hækka ekki virðisaukaskattinn upp í 14% muni kakan stækka, umsvifin aukast. En er það líklegt og er það rétt stefna? Ég velti því fyrir mér. Það er ekki beinlínis hægt að segja að skortur á umsvifum hái íslenskri ferðaþjónustu. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega og því er spáð að þeir verði um milljón árið 2020. Ég hef engan séð breyta þeim spám þrátt fyrir að áformað hafi verið að hækka virðisaukaskattsprósentuna á gistiþjónustu upp í 14%. Þær spár eru enn þá fyrirliggjandi og þær standa.

Þessi auknu umsvif kalla á útgjöld. Þau kalla á að við þurfum að treysta innviði ferðaþjónustunnar, bæta aðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum. Þau skapa kostnað. Er það endilega rétt stefna á þessum tímapunkti, þegar umsvifin hafa verið að aukast gríðarlega og munu mjög líklega aukast gríðarlega, að grípa til aðgerða í skattumhverfinu sem eiga að auka umsvif enn frekar? Er það skynsamlegt?

Ég hef talið skynsamlegra að reyna frekar með hóflegri skattheimtu að ná inn tekjum af þeim umsvifum sem eru fyrir hendi í ferðaþjónustu og nýta þá peninga m.a. til að standa straum af kostnaði við betri aðbúnað, betri innviði, rannsóknir, upplýsingaöflun í ferðaþjónustu.

Mér finnst satt að segja ekki standa steinn yfir steini í frumvarpinu. Mér finnst óþarfi að fara í þessar aðgerðir. Ég held hins vegar að í ferðaþjónustu séu fjölmörg úrlausnarefni. Margir sem komu fyrir nefndina töluðu um að ýmislegt þyrfti að gera í ferðaþjónustu. Það skorti rannsóknir og nauðsynlega aðstöðu. Það þarf að reyna eftir öllum þeim leiðum sem við höfum að jafna ferðamannafjöldann yfir landsvæði og yfir árstíðir. Það er mikið og stórt verkefni. Þetta frumvarp er ekki liður í því.

Það þarf að taka á svartri atvinnustarfsemi. Margir þeirra sem komu fyrir nefndina bentu á að hún væri æðiyfirgripsmikil í gistiþjónustu. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt. Ég held að frumvarpið sé heldur ekki liður í að taka á því. Ég held að einfalda þurfi skattumhverfið. Þegar kemur að heimagistingu — ég held að það sé einkum þar sem svört atvinnustarfsemi er algeng — held ég að búa þurfi til betra laga- og skattumhverfi og einfaldara sem gerir þessum aðilum kleift að stunda atvinnustarfsemi sína löglega og borga sanngjörn gjöld, þar á meðal þennan virðisaukaskatt. Ég held að umhverfið sé of flókið og það þurfi einfaldlega að fara í það verkefni að búa til umgjörð, einhver lög, um heimagistingu.

Það er fjölmargt sem þarf að gera. Það eru líka margvíslegir meinbugir á umgjörð skatta og gjalda í ferðaþjónustu í heild sinni, t.d. allt of margar undanþágur. Helst ætti að hafa bara eitt skattþrep í virðisaukaskatti fyrir ferðaþjónustuna alla, en það hefur ekki gengið vel að ná samhljómi innan ferðaþjónustunnar um slíkt markmið.

Ég spurði umsagnaraðila að því sérstaklega í nefndinni hvort frumvarpið væri á einhvern hátt liður í því að einfalda umgjörð skatta og gjalda í ferðaþjónustu, væri hluti af einhverri langtímahugsun, en það er ekki. Það virðist ekki vera. Hér hangir heldur ekki á spýtunni að önnur áform séu uppi um gjaldtöku af ferðamönnum. Það er ekki hluti af greinargerðinni eða hluti af svörum umsagnaraðila að eitthvað annað kæmi í staðinn. Hér skortir því alla heildarhugsun. Hér er farið af stað einhvern veginn út í loftið og að óþörfu.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé hluti af stærra heildarvandamáli sem við glímum við í íslensku samfélagi, sem er að það virðist vera erfitt að mynda samhljóm um sanngjarna, réttláta og eðlilega gjaldtöku af auðlindum okkar. Mér finnst vera algjörlega allsráðandi sú hugmyndafræði að hagnaður eigi að verða eftir í þessum greinum og að fólk muni njóta góðs af þeim hagnaði eftir alls konar leiðum sem fyrir hendi eru í hagkerfinu. Sumir kalla þetta einhvers konar brauðmolahagfræði. Ég veit það ekki, en þessi hugmyndafræði er ekki fyllilega að skila sér í íslensku samhengi. Hún hefur ekki skilað sér í sjávarútvegi. Hún hefur ekki skilað sér þegar kemur að arði af orkuauðlindum þjóðarinnar. Hún hefur ekki skilað sér í ferðaþjónustu.

Við þurfum að sækja réttlátan skerf af arðinum, hagnaðinum, sem skapast í ferðaþjónustu, í sjávarútvegi, hvað varðar orkuauðlindir, og augljóslega ef við fyndum olíuauðlindir. Við þurfum að láta réttlátan skerf renna til samneyslunnar. Það er verkefnið. Og við Íslendingar þurfum að mynda samhljóm um það.

Ég er ekki að tala um að allur arður, allur hagnaður, renni til ríkisins eða að ofskatta allar þessar atvinnugreinar, en það er einfaldlega ákveðin birtingarmynd af — ég vil nú varast að nota stór orð, en ég vil segja birtingarmynd á einhvers konar arðráni ef þjóð nýtur ekki auðlinda sinna í beinum tekjum. Mér finnst þetta vera eitt meginviðfangsefni Íslendinga núna í upphafi 21. aldarinnar, að tryggja arð af orkuauðlindunum, en beinn arður af þeirri mjög svo mikilvægu auðlind er skammarlega lítill, tryggja arð af sjávarauðlindinni og tryggja arð af ferðamennsku. Hér er stigið skref til baka.

Það ræður úrslitum um afstöðu mína til þessa frumvarps að rekstur ríkisins er í járnum. Fjárþörfin verður gríðarleg á komandi árum. Erfiðir kjarasamningar eru handan við hornið. Ýmsar væntingar eru í skuldamálum heimilanna. Skuldir ríkissjóðs eru gríðarlegar. Innviðir velferðarþjónustunnar þurfa mikið fé. Þar hefur raunar farið fram eitt form af lántöku á undanförnum árum. Almannatryggingakerfið er í gríðarlegri fjárþörf. Vegakerfið. Viðhald húsa. Við munum fá þetta allt upp á yfirborðið núna á kjörtímabilinu.

Hér er að óþörfu verið að afsala sér tekjum. Við munum sjá eftir því. Við þurfum þessar tekjur. Þess vegna mæli ég og við í Bjartri framtíð gegn því að frumvarpið verði samþykkt.