142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Í frumvarpinu felst tillaga um að virðisaukaskattur af útleigu hótel- og gistiherbergja og sölu af annarri gistiþjónustu verði 7% af skattskyldri veltu eins og verið hefur frá árinu 2007 en ekki 14% eins og hún var áður og Alþingi samþykkti við afgreiðslu frumvarps þess sem síðar varð að lögum nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Lögfesting frumvarpsins felur í sér 535 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs á yfirstandandi ári og 1,5 milljarða kr. tap á því næsta. Ljóst er að verði frumvarpið að lögum mun það kalla á frekari tekjuöflun á öðrum sviðum eða frekari niðurskurð.

Þá þykir 3. minni hluta frumvarpið enn sérkennilegra í ljósi blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar um erfiða stöðu ríkisfjármála hinn 12. júní síðastliðinn.

Þær hækkanir sem ákveðnar voru á síðasta löggjafarþingi með lögum nr. 146/2012 voru mildaðar úr 25,5% í 14% og gildistöku laganna frestað á grundvelli þeirra röksemda að búið væri að verðleggja gistingu á þessu ári. Á þeim forsendum má ætla að búið sé að gera ráð fyrir breytingunni og að tekið sé mið af henni í verðlagi gistiþjónustunnar frá 1. september 2013.

Þriðji minni hluti undirstrikar að almennt sé sjálfsagt að endurskoða heildstætt virðisaukaskattskerfið og skattlagningu á ferðaþjónustu.

Mikilvægt er að tryggja nauðsynlegt fjármagn til uppbyggingar, varðveislu og viðhalds ferðamannastaða hér á landi og 3. minni hluti minnir á að í fjárfestingaráætlun fráfarandi ríkisstjórnar var gert ráð fyrir átaki til að efla innviði á ferðamannastöðum hér á landi með sérstöku 500 millj. kr. viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, auk þess sem 250 millj. kr. yrði varið til uppbyggingar í þjóðgörðum og á friðuðum svæðum. Nauðsyn slíkrar eflingar er augljós og brýn og verði frumvarp þetta samþykkt er mikilvægt að umrædd framlög verði ekki skorin niður, en ekkert kemur fram í frumvarpinu hvort ríkisstjórnin hyggst fylgja eftir þeim áformum sem fram koma í fjárfestingaráætluninni.

Ríkissjóður þarf á auknum skatttekjum að halda. Ljóst er að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu hefur minnst áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með á skuldir heimilanna og verðbólgu í landinu.

Þriðji minni hluti hvetur til heildarendurskoðunar á skattlagningu ferðaþjónustunnar og til herts skatteftirlits. Þá leggur hann til að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Undir þetta nefndarálit skrifar hv. þm. Helgi Hjörvar.

Virðulegi forseti. Við þurftum að fara í sársaukafullar aðgerðir eftir hrun. Við þurftum að afla tekna, en við þurftum einnig að skera niður í velferðarkerfinu. Við veltum við öllum steinum til þess að taka á fjárlagagatinu. Auðvitað var litið til ferðaþjónustunnar einnig, en henni hlíft vegna óvissuástands sem skapaðist vegna tveggja eldgosa hér á landi.

Þegar litið er til síðustu 20 ára hefur ferðaþjónustan vaxið gífurlega. Fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað koma til landsins hefur fjölgað að meðaltali um 7%, en gífurlega síðastliðin tvö ár. Virðisaukaskatturinn hefur breyst. Hann var enginn, fór í 14% og svo í 7%. Verð á gistiþjónustu hækkaði, en krónan hefur ýmist veikst og styrkst. Ferðamönnum hefur samt fjölgað jafnt og þétt.

Ástæða var til að líta til ferðaþjónustunnar í þessari stöðu þar sem ljóst var að samkeppnisstaða eða rekstrarumhverfi væri verið mun betra en í langflestum nágrannaríkjum okkar ef við horfum á heildarskattlagningu greinarinnar.

Virðulegi forseti. Þegar forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er síðan lögð fram og gert ráð fyrir að draga þessa hækkun til baka þá hefði maður kannski ætlað að líka væri svigrúm til að gefa til baka í velferðarkerfinu því að þar eru, t.d. í heilbrigðiskerfinu, margar stofnanir illa staddar, ég tala nú ekki um í menntakerfinu, en það er ekki. Á sama tíma og boðað er að afsala sér tekjum er haldinn blaðamannafundur til þess að láta almenning vita að nú þurfi að skera enn meira niður og fara inn í öll ráðuneyti til þess að athuga hvort ekki sé hægt að minnka kostnað við rekstur ríkisins og velferðarkerfisins. Þetta er skrýtin forgangsröðun. Ég lýsi furðu minni á henni.