142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum skatt á gistiþjónustu, hvort virðisaukaskattur á gistiþjónustu skuli hækkaður úr 7% í 14% eða ekki. Niðurstaða meiri hlutans er að hann eigi ekki að hækka. Hvers vegna? Einföldun kerfisins skiptir miklu máli eins og ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni, það er stórt atriði. En kannski er enn þá mikilvægara atriði að mínu mati að spyrja sig: Er nægur vöxtur í íslenskri ferðaþjónustu? Vantar ekki meiri gjaldeyri inn í landið? Vantar ekki fleiri störf?

Ef það eru næg störf og nægur gjaldeyrir skulum við fyrir alla muni hækka þennan skatt vegna þess að þarna erum við í erlendri samkeppni um að fá ferðamenn til Íslands. Ég þekki það mjög vel af minni reynslu, ég hef verið í þessum rekstri í mörg ár og aðstoðað ferðamenn við að finna ódýrasta flug, ódýrasta hótel með þar til gerðri leitarvél. Ég veit að þeir eru oft að huga að síðustu 10 dollurunum, síðustu evrunni í því, þegar þeir ákveða með hvaða vél þeir ætla að fljúga, hvaða hótel þeir ætla að taka.

Auðvitað skiptir upplifunin miklu máli, það hefur margoft komið fram. Ísland býður upp á frábæra upplifun, en Ísland keppir við öll önnur lönd í heiminum sem bjóða líka upp á frábæra upplifun. Alltaf eitthvað skemmtilegt. Þegar kemur að því að taka ákvörðun ræður verðið oft mjög miklu.

Það kemur fram í skýrslu Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, apríl 2013, að 36,8% aðspurðra segja að tilboð hafi haft áhrif á ákvörðun sína um að ferðast til Íslands. Ástæðan er ekki bara menningin, náttúran og allt sem við höfum að bjóða, heldur höfðu 36,8% aðspurðra orðið fyrir áhrifum af verðtilboði.

Síðan er mikilvægt að þegar ferðamaðurinn er kominn á annað borð til Íslands er hægt að selja honum margt fleira. Þá detta okkur endalaust margir hlutir í hug til að bjóða honum að eyða peningum í. Þá renna náttúrlega krónur í ríkiskassann.

86% af þeim ferðamönnum sem koma til Íslands eru að koma í frí. Þá er verðnæmi mikið, verðið hefur þá miklu meiri áhrif en þegar menn koma í viðskiptaferðalag þar sem vinnuveitandinn borgar fyrir þá. Þess vegna eru ferðamenn á leiðinni í frí mjög uppteknir af því hvað kostar að fara til Íslands þó að Ísland sé vissulega freistandi áfangastaður.

Ferðaheildsalar sjá mjög mikið um þá ferðamenn sem koma hingað í hópum og þeir hugsa algjörlega um verðið. Þeir taka mjög vel eftir því ef virðisaukaskattur á Íslandi á gistiþjónustu er hærri en í öðrum löndum. Hvað gera önnur lönd? Í Frakklandi og öllum löndum sem ég veit um er þessi þjónusta höfð í lægra skattþrepi en almennu skattþrepi. Þannig rukka Frakkar t.d. 5,5% virðisaukaskatt á gistiþjónustu sérstaklega. Þjóðverja lækkuðu hann nýverið niður í 7%. Meðaltal í Evrópulöndunum er 10%, en almenna reglan virðist vera sú að nota ávallt lægsta skattþrepið. Það er til þess að fá gestina til landsins af því menn vita að þegar gesturinn er kominn til landsins eyðir hann alltaf meira en hann ætlaði sér. Það má alveg treysta því, ég lendi að minnsta kosti alltaf í því þegar ég er í útlöndum.

Hvað er í húfi? Við erum að tala um atvinnugrein sem skapar 23% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þar af fara 106 milljarðar beint í neyslu innan lands. Hér erum við að velta fyrir okkur 1,5 milljörðum sem koma hugsanlega ekki í ríkiskassann. Hafandi kynnt mér þær umsagnir sem bárust nefndinni og heyrt í þeim gestum sem komu til nefndarinnar sem töluðu um hversu mikið er um undanskot í greininni þá dreg ég í efa að þessir 1,5 milljarðar séu fastir í hendi, að þeir hefðu skilað sér. Hver getur sýnt fram á það?

Hér hefur verið spurt, ómaklega að mér finnst, hvað eigi að koma í staðinn ef við ætlum ekki að leggja þennan skatt á, ef við ætlum ekki að hækka hann úr 7% í 14%. Hvað kemur í staðinn? Ég segi: Það nægir ef 2% fleiri ferðamenn koma í staðinn. Þá er búið að bæta ríkissjóði upp það tjón sem hann hefði hugsanlega orðið fyrir.

Arion banki hefur nýlega skrifað greinargerð um að hér séu möguleikar að ná mörgum milljörðum í gjaldtöku á ferðamannastöðum innan lands eftir að ferðamennirnir eru komnir til landsins. Þeir telja 5 milljarða eðlilegt, 4–5 milljarða, hvort sem það væri af ferðamannapassa eða aðgangseyri að náttúruperlum.

Ég spurði gesti sem komu á fund nefndarinnar: Hvað teljið þið að hægt væri að ná í meira ef þessi svarta atvinnustarfsemi væri upprætt? Hvað erum við að tala um? 5–15 milljarða í auknar tekjur í skatta, var svarið. Þarna eigum við að beita okkur, hjálpa þeim sem reka heiðarlega þjónustu og starfsemi, sem eru náttúrlega velflestir, svo að þeir verði ekki halloka í samkeppninni við þá sem eru að svíkjast undan. Við eigum að koma á miklu betra eftirliti. Þannig náum við miklu meiri tekjum, bara það sem ég var að nefna, 10 milljarða, gætum við verið að fá í staðinn. En við skulum ekki flæma burt ferðamenn sem gætu annars komið hingað.