142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski ekki andsvar en af því að hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði um það sem fellur undir heitið „eftirlit“ vil ég benda á að fyrir nefndina komu tveir ágætir fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands, þær Drífa Snædal og Halldóra Sveinsdóttir. Starfsgreinasambandið lýsti ekki stuðningi við lækkun á virðisaukaskatti en hins vegar fór tími þessara ágætu fulltrúa í að upplýsa efnahags- og viðskiptanefnd um að stærsta verkefni þeirra varðandi ferðaþjónustuna væri að fara yfir mál varðandi kjarasamninga, og þá sérstaklega á haustin þegar sumarvertíðinni væri lokið. Þessir fulltrúar sögðu að þá leitaði og ungt fólk jafnt sem eldra fólk til Starfsgreinasambandsins vegna þess að kjarasamningar væru ekki uppfylltir.

Þetta er þarna inni undir heitinu „eftirlit“, vegna þess að það voru þau skilaboð sem fulltrúar Starfsgreinasambandsins komu með til nefndarinnar þegar umræða stóð um að draga til baka þau lög sem samþykkt voru á Alþingi um að hækka gistináttaskattinn úr 7% í 14 %. Þess vegna er þessi stutta klásúla hér inni undir því heiti. Þetta frumvarp er ekki hugsað til þess að fylgja því eftir en þetta var ábending frá þessum ágætu fulltrúum Starfsgreinasambandsins og þótti nefndinni ástæða til að láta það fylgja hér með.