142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka til umræðu í dag, undir liðnum Störf þingsins, svarta atvinnustarfsemi á Íslandi. Tilefnið er skýrsla sem nýlega kom út á vegum Eurofound en það er stofnun á vegum Evrópusambandsins sem við eigum aðild að sem EFTA-ríki. Þar er lagt mat á hversu umfangsmikið vandamál svört atvinnustarfsemi er hér á landi og hvernig best sé að bregðast við.

Í skýrslunni kemur fram að svört atvinnustarfsemi á Íslandi nemi um 15% af vergri þjóðarframleiðslu á ári en það eru hátt í 300 milljarðar kr. á ári. Fyrir þá peninga væri hægt að gera mjög margt, t.d. að byggja nýjan Landspítala en áætlað er að hann kosti á milli 70 og 80 milljarða kr.

Bæði lækkun skatta og einföldun skattkerfisins er á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Einhver besta leið til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi er einmitt sú að skattar séu ekki of íþyngjandi og regluverkið ekki of flókið.

Í skýrslunni eru íslensk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að bjóða ekki upp á fleiri leiðir fyrir þá aðila sem vilja komast út úr svartri atvinnustarfsemi og bæta þannig ráð sitt. Það er mikilvægt að höfða til samvisku fólks í þessu máli því að flestallir vilja standa heiðarlega að lífi sínu og ekki þannig að fjármunirnir renni ofan í hið svarta hagkerfi í stað þess að samfélagið njóti góðs af í skynsamlegum mæli. Svört atvinnustarfsemi skerðir líka stórlega samkeppnishæf fyrirtæki sem vilja starfa heiðarlega gagnvart svörtu sauðunum.

Velflest okkar hafa einhvern tíma tekið þátt í svartri atvinnustarfsemi með einum eða öðrum hætti. Menn hugsa sem svo: Hvað geta nokkrir þúsundkallar skipt máli til eða frá? En margt smátt gerir eitt stórt og andvirði sem er á við byggingu fjögurra nýrra Landspítala á ári er svo sannarlega engin skiptimynt.