142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja máls á málaflokki sem fráfarandi ríkisstjórn, sem kenndi sig meðal annars við velferð og jafnrétti kynjanna, lagði mikla áherslu á en það er málaflokkurinn um meðferð kynferðisafbrotamála í dómskerfinu. Ég tel því mikilvæga samráðsferli fráfarandi ríkisstjórnar, sem hún kom á og stóð fyrir við alla hlutaðeigandi aðila, á borð við lögreglu og hagsmunasamtök lögfræðinga, þegar kemur að meðferð kynferðisafbrotamála innan dómskerfisins, verði að halda áfram, sér í lagi nú þegar tekin er til starfa ríkisstjórn sem segir í sáttmála sínum að hún muni endurmeta þær aðferðir sem notaðar hafa verið í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna með það að markmiði að bæta árangur á sviði jafnréttismála.

Ekki hefur verið útskýrt nánar hvað ríkisstjórnin á við með þessari yfirlýsingu en það er von mín að það þýði ekki afnám þeirra góðu verka sem voru innleidd í jafnréttismálum af hálfu fráfarandi ríkisstjórnar heldur að halda áfram með þau góðu verk sem stefna þeirrar ríkisstjórnar byggði á, ríkisstjórnar sem var í fyrsta sinn skipuð tveimur stjórnmálaflokkum sem höfðu jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi sem undirstöðu stefnu sinnar. Ég vil sérstaklega hvetja innanríkisráðherra til að halda áfram með skýra vinnu og skýra stefnu í þessum málaflokki.