142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Það er okkur þingmönnum til vansa að hafa sent sendinefnd í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sem eingöngu voru í karlmenn. Það hefur líka komið fram á fundum formanna þingflokkanna að þessu verði breytt fyrir næsta fund.

Það var hins vegar jafn klént í umræddum leiðara í Fréttablaðinu — annað tveggja fór þar fram algert þekkingarleysi þess sem ritaði leiðarann eða einbeittur vilji til að skýra rangt frá — þegar leiðarahöfundur vænir ríkisstjórnina um að bera ábyrgð á þessu. Þetta er á ábyrgð þingsins og ég ítreka að það er til vansa og því þurfum við að breyta.

Af því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefnir hér nýja verkferla þá held ég að það sé ljóst að þingflokksformenn allra flokka þurfi, áður en skipað er endanlega í nefndir, að sýna á spilin til að við getum, jafnt í nefndum innan þings sem fastanefndum á alþjóðavettvangi, komið í veg fyrir að þar sitji eingöngu konur eða eingöngu karlar.

Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni fyrir okkur, þegar við ræðum svo stíft um nefndir á vegum þingsins og nefndir á vegum ríkisins, og stjórnir og ráð, að á Jafnréttisstofu starfi sjö konur og einn karl. Það getur heldur ekki verið hið eina rétta og ef okkur er annt um að jafnrétti sé víða og jafnt í stjórnum, ráðum og nefndum þá held ég að þar þurfi líka að taka til hendinni; í þeirri stofu sem heldur utan um að við hin fylgjum jafnréttislögum.