142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

vanhæfni þingmanna til að fjalla um mál.

[14:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Í ljósi þess sem gerðist hér fyrr í dag er rétt að mælast til þess að á einhvern hátt verði farið í að kynna fyrir eldri þingmönnum og nýjum þingmönnum hver raunveruleg skylda þeirra sem sitja í þinginu er og hvenær þingmenn verða vanhæfir í málum svo að við sem störfum í nefndum þingsins losnum við óþægindi eins og þau sem komu upp í hv. atvinnuveganefnd í morgun þar sem dýrmætum tíma nefndarinnar var eytt í bókanir um vanhæfni þingmanna.

Hæfni þingmanna til að sinna starfi sínu hér í þinginu er alveg klár og það er einungis þegar þeir fjalla um sína eigin persónulegu hagsmuni sem þeir verða vanhæfir. Það er alveg klárt og hæstaréttarlögmenn hafa jafnvel þrengri vanhæfnisreglur en þingmenn. Ég vil að þetta komi fram undir liðnum um fundarstjórn forseta, þetta þarf að kynna vel fyrir þingmönnum.