142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka brýna umræðu og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin sem hann gaf í ræðustól. Ég hef þó áhyggjur af því sem hann segir um að nýr Landspítali sé einhvern veginn síðasti steinninn sem þurfi að setja í virkið, að við þurfum síðast að hugsa um steypuna, af því að nýr Landspítali er einmitt eitt stærsta pústið til að leysa þennan stóra vanda í heilbrigðisþjónustunni.

Við verðum að átta okkur á því að við spörum ekki peninga með því að gera ekki neitt eða með því að halda í horfinu. Þvert á móti er það sóun á almannafé að hafa starfsemi Landspítalans úti um allar trissur eins og hún er í dag, í húsnæði sem er úr sér gengið, þarfnast viðhalds og hentar oft og tíðum ekki nútímaspítalarekstri. Auk þess hamlar þetta fyrirkomulag samfellu og flæði starfskrafta spítalans sem og flæði í þjónustu. Þetta er óhagkvæmni í beinhörðum peningum talið og við þurfum að taka á því.

Í kosningabaráttunni fannst mér stjórnarflokkarnir leggja litla áherslu á Landspítalann og tala meira um heilsugæsluna. Það er full ástæða til þess að tala um heilsugæsluna og alls ekki vanþörf á því, því að hana þarf að efla og útvíkka, en ég vara við því að þingmenn og jafnvel heilu þingflokkarnir stilli þessu tvennu upp sem andstæðum. Grunn- og hátækniþjónusta í heilbrigðiskerfinu verður að haldast í hendur og vera hugsuð sem ein heild.

Landspítalinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í heilbrigðiskerfi okkar. Við erum á bjargbrúninni með hann og við þurfum að vakna og taka af skarið. Þetta er stærsti vinnustaður ríkisins og starfsfólkið okkar er orðið langþreytt á því að við stjórnmálamennirnir virðumst ekki átta okkur á umfangi vandans (Forseti hringir.) sem það þarf að glíma við á hverjum degi.