142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:21]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur, með leyfi forseta:

„Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Þar stendur líka, með leyfi forseta:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“

Þarna komum við að mikilvægu atriði sem segja má að sé eitt af stærstu byggðamálum þjóðarinnar. Grunnþjónustan verður að vera til staðar úti um landið til að við getum í raun byggt það allt. Ég held að við séum öll sammála um nauðsyn þess að hafa trausta og góða sérfræðiþjónustu í Reykjavík en undanfarið hefur álagið á starfsfólk spítalans verið óheyrilegt. Að hluta til má rekja það til minnkandi þjónustu úti á landi þar sem sjúklingum hefur verið beint í meira mæli inn á sérhæfðar sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu þótt mörgum þeirra hefði mátt sinna í heimabyggð með minni tilkostnaði og meiri þægindum fyrir þjónustuþega.

Núna stöndum við frammi fyrir því verkefni að endurskoða og endurreisa heilbrigðiskerfið svo það megi þjóna landsmönnum öllum. Áfram skulum við stefna að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð og að ávallt verði í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er.