142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þá umræðu sem hér er um nýbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég er ein þeirra sem tel að hennar sé þörf, ekki eingöngu út af vinnuskilyrðum starfsmanna heldur einfaldlega út af húsakosti Landspítalans — mörg þeirra húsa eru barn síns tíma og uppfylla ekki þau skilyrði sem heilbrigðisþjónustan kallar á. Þess vegna þurfum við að huga að byggingu nýs Landspítala.

Það er hins vegar jafn ljóst að við þurfum að huga að heilsustefnu þjóðarinnar í heild sinni og heilbrigðisþjónustunni í heild sinni.

Það er rétt, sem fram kom í máli þingmanna hér á undan, að heilsugæslunni hefur ekki verið veitt umboð til að taka við jafn miklu og hún er fær um heima í héraði. Þess vegna hafa einstök tilfelli, sem betur ættu heima þar, oft og tíðum ratað inn á Landspítalann. Þessu þurfum við að breyta. Ákveðna hugarfarsbreytingu þarf hjá okkur sem notum þjónustuna til að þetta gangi fram eins og hugsunin er, að heilsugæslan sé ávallt fyrsti viðkomustaður sjúklings.

Það er annað sem er undir hvað varðar byggingu Landspítalans. Fólkið okkar, sem er vítt og breitt um heiminn, velmenntað fólk, kemur ekki heim vegna þess að tæki og tól sem nú eru á Landspítalanum eru ekki þau tæki og tól sem það hefur lært að nota úti í hinum stóra heimi, það þarf einnig að horfa til þess.

Heilbrigðisþjónustan, heilsugæslan eða bygging nýs spítala; allt hangir það á sömu spýtu og spýtan heitir í þessu tilviki fjármagn. Því þarf að forgangsraða á réttan hátt.