142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu.

Í þau fáu skipti í kosningabaráttu núverandi ríkisstjórnarflokka sem tæpt var á byggingu nýs Landspítala snerust kosningaloforð beggja flokka eingöngu um yfirlýsingar um að endurskoða bæri áætlanir um nýbyggingar spítalans og leggja áherslu á heilbrigðisþjónustu um allt land. Á málþingi 8. maí síðastliðinn, um málefni nýja Landspítalans, benti Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, á að ekki þýði að gera bara annaðhvort, fresta einu til að byggja annað upp. Klára verði bæði uppbyggingu Landspítalans og styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Annað sé grunnfærin umræða.

Stefán benti enn fremur á, í viðtali á RÚV sama dag, að báðir þessir hlutar heilbrigðiskerfisins hefðu verið fjársveltir til margra ára og að byggja þurfi nýjan Landspítala alveg óháð vandamálum annars staðar í kerfinu. Ekki sé hægt að aðskilja uppbyggingu Landspítalans annars vegar og þjónustu á landsbyggðinni hins vegar.

Þann 27. maí lýsti hæstv. heilbrigðisráðherra því yfir í morgunútvarpi Rásar 2 að ríkisstjórnin muni endurskoða áform um byggingu nýs Landspítala á næstunni, sagði fullkomlega eðlilegt að ný ríkisstjórn vildi fara yfir málið; þó svo að þrír núverandi ráðherrar hafi samþykkt lög um nýjan Landspítala úr fjárlaganefnd eins og áður hefur komið fram hér. Þrátt fyrir það sagði hæstv. heilbrigðisráðherra að forval, sem auglýst var fyrir kosningar, standi yfir í sumar eins og gert hafði verið ráð fyrir áður en ríkisstjórnarskipti urðu.

Hvað þýðir það nákvæmlega að fara yfir málið? Hvenær ætlar ríkisstjórnin sér að vera búin að því? Þýðir það enn eitt kostnaðarmat? Þýðir það að niðurstöður forvals um hönnun nýrra bygginga, sem ákveðið var að halda áfram, verði svo hunsaðar? Ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að fara í leiðinni yfir samhljóða ályktun aðalfundar Læknafélags Reykjavíkur frá 29. maí þar sem félagið lýsir yfir áhyggjum af húsnæðismálum Landspítalans og segir að ef stjórnvöld telji að ástandið í þjóðfélaginu komi í veg fyrir áætlaða nýbyggingu sé nauðsynlegt að gera gagngerar breytingar á (Forseti hringir.) núverandi húsnæði. Slíkar bráðabirgðabreytingar séu þó líklegar til að vera ófullnægjandi (Forseti hringir.) og gríðarlega kostnaðarsamar.

Hér er um að ræða áratugagamla kröfu heilbrigðisstarfsfólks um úrbætur á húsnæðismálum Landspítalans. Hvenær og hvernig (Forseti hringir.) hyggst hæstv. hæstv. heilbrigðisráðherra svara þeim kröfum?