142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil gera verulegar athugasemdir við þá nálgun hæstv. heilbrigðisráðherra að einhvern veginn þurfi fyrst að koma böndum á reksturinn í heilbrigðisþjónustu og ýmiss konar fjársvelti sem þar hefur verið viðvarandi svo fara megi að huga að steypunni, eins og hann orðaði það. Sú nálgun finnst mér há verulega umræðunni um nýtt sjúkrahús. Það er auðvitað liður í því að hagræða í rekstrinum, að gera reksturinn betri, að byggja nýtt sjúkrahús. Það er svolítið svipað eins og að eiga bíl sem ekki hentar lengur, sem eyðir of miklu bensíni, sem er farinn að bila mjög mikið, svo ég noti dæmi sem ég held að flestir skilji. Það getur haft grundvallarþýðingu fyrir rekstur heimilisbókhaldsins að skipta út þeim bíl og kaupa sér annan sparneytnari, jafnvel á lánum, svo ég noti aftur dæmi sem ég held að allir skilji.

Það er í hnotskurn það sem átt er við þegar við tölum um að byggja nýtt sjúkrahús.

Við erum ekki bara að tala um einhverja steypu eða einhvern lúxus, um nýtt hús sem kemur einhvern tímann. Við erum að tala um aðbúnað sjúklinga. Við erum að tala um sýklavarnir. Því er orðið verulega ábótavant í núverandi byggingu. Við erum að tala um aðstöðu starfsmanna. Við erum að tala um hvort fólk geti hugsað sér að vinna í þessum byggingum. Við erum að tala um hvort nútímatækjakostur komist fyrir. Þetta á auðvitað að vera sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna. Þetta er þjóðarsjúkrahúsið. Við verðum að fá skýr svör við því hvað gera á í þessum vanda og við verðum að hætta að stilla þessu verkefni upp sem einhvers konar andstöðu við það að byggja upp heilsugæslu, byggja upp hjúkrunarheimili, byggja upp forvarnir. Allt helst það í hendur og ég endurtek: Það er einn stór liður í því að koma á góðri (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu á Íslandi og hagræða í heilbrigðisþjónustu að byggja nýtt sjúkrahús. Að sjálfsögðu er það ekki (Forseti hringir.) fjármagnað með rekstrarfé, heldur á löngum tíma.