142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna. Ég held að hún sé mikilvæg vegna þess að þetta er einn af þeim þáttum sem þurfa að liggja ljóst fyrir fljótlega vegna þess að eins og komið hefur ágætlega fram í umræðunni þá hanga hlutirnir saman. Bygging Landspítala verður ekki gerð á einu ári, það er framtíðarverkefni, en það þarf að fara í gang og komast sem fyrst af stað.

Af því ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra kemur hér á eftir langar mig aðeins að segja að á sínum tíma var líka rætt um að fara í þessa framkvæmd einmitt núna til þess að efla atvinnu og ná því markmiði að hreyfa svolítið við hlutunum, sérstaklega ef hægt væri að gera það með hagræðingu. Bara byggingin ein mundi skapa hagræðingu upp á 2,6 til 3 milljarða á ári. Þar með væri hægt að fjármagna framkvæmdina með því og með langtímaláni. Það lá meira að segja fyrir samkomulag eða viljayfirlýsing af hálfu lífeyrissjóðanna um að fjármagna slíka framkvæmd. Ég bið því hæstv. ráðherra að skoða málið í því samhengi.

Í öðru lagi biðst ég undan því að við séum að tala um nýjan spítala sem eingöngu steypu. Komið hefur ágætlega fram hjá öðrum í umræðunni að auðvitað er verið að byggja þessa byggingu vegna þess að okkur vantar hana, til þess að geta veitt betri þjónustu, til að bregðast við því sem við sjáum fyrir okkur og ágöllum sem hafa þegar komið upp. Það kom ágætlega fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar að það þarf einmitt aðstöðu fyrir tækin sem verið er að kalla eftir að sett verði inn. (Gripið fram í.)Bara það að setja inn róbóta, eins og verið (Gripið fram í.) er að tala um þessa dagana, kostar verulega miklar breytingar á núverandi húsnæði og við að koma slíkum tækjum inn í nýjar byggingar, þannig að við verðum að skoða það allt í samhengi.

Ég ætla að leyfa mér að túlka orð hæstv. ráðherra þannig að verkefnið haldi áfram, að því ferli sem er í gangi núna verði fylgt eftir og þannig geti hæstv. ráðherra blásið bjartsýni inn í Landspítalann, að til standi að koma húsnæði yfir þessa starfsemi á einum stað. Ég treysti á að þessum áformum verði fylgt eftir af nýjum heilbrigðisráðherra.