142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir umræðuna sem aðrir hv. þingmenn haft hafa uppi um þetta brýna, mikilvæga mál. Ég vil þó segja það alveg hreinskilnislega að ég undrast að sumu leyti orð þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls sem ræða málið þannig að það sé ekkert vandamál að stökkva til og hefja byggingu heils spítala. Hvað gerir t.d. einstaklingur sem vill gjarnan fá sér sparneytnari bíl en hefur ekki efni á því? Hann skiptir væntanlega ekki um bíl.

Staðan er þannig að þetta er ekki eitt tiltekið vandamál sem við glímum við. Það er eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði áðan; það þarf að fara að horfa til stærri hluta, m.a. öldrunar þjóðarinnar. Ætli Landspítali – háskólasjúkrahús sé ekki að verða með stærsta öldrunarheimili landsins? Verðum við ekki að finna lausn á því dæmi? Á sama tíma erum við með fjárhagslega veikleika í heilbrigðiskerfinu sem nemur nokkrum milljörðum, sem við þurfum að brúa og finna lausn á á þessu ári. Á sama tíma erum við með einhverja tugi milljarða í halla í rekstri ríkissjóðs. Er það ekki hluti af því máli sem við verðum að finna lausn á? Og árlegur rekstrarsparnaður upp á 2,6 milljarða, sem áætlanir gefa til kynna að megi vænta af því að byggja yfir spítalann á einum stað, hefur lítið að segja upp í þann stabba sem við er að glíma þarna. Við verðum líka að vera ábyrg í því að ræða heilbrigðiskerfið allt saman þegar við ræðum þetta eina tiltekna mál.

Það er engin ástæða, ekki nokkur, til þess að stilla grunnþjónustunni og hátækniþjónustunni upp sem andstæðum. Þetta er allt saman ein heild.

Ég ítreka það líka það sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þegar við horfum til öldrunar þjóðarinnar; þar er einn stór þáttur líka inni sem menn verða að horfast í augu við sem eru lífeyrisskuldbindingar sem munu falla á landsmenn eftir tiltölulega (Forseti hringir.) skamman tíma sem nema um tugum milljarða á hverju (Forseti hringir.) einasta ári. Það eru allt þættir sem menn verða að horfa til þegar við ræðum svona stór áform.