142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við tökum til baka þá breytingu sem gerð var í vor að bæta við nýju virðisaukaskattsþrepi, 14%, til viðbótar við þau fjögur sem voru til staðar áður. Þau fjögur eru 25,5%, 7%, 0% með endurgreiðslum og enginn virðisaukaskattur þar sem innskattur er ekki til frádráttar. Ég fagna því að einfalda eigi skattkerfið aftur og styð þessa tillögu og mun greiða henni atkvæði mitt.

Auk þess sem þetta mun auka samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og hugsanlega auka ferðamannastraum til Íslands umfram það sem ella væri mun þetta koma landsbyggðinni sérstaklega til góða en hún stefnir á að reyna að auka ferðaþjónustu á veturna.