142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Um er að ræða verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Með þessu máli, að viðbættum öðrum málum sem ríkisstjórnin er hér með, erum við að tala um að ríkissjóður sé að afsala sér tekjum sem nemur um 10 milljörðum króna á þessu ári og næsta — með stórlækkuðum veiðigjöldum, og hér eru tvö mál sem leiða til þess að tekjur ríkissjóðs fara niður um 12 milljarða á þessu ári og því næsta.

Hér er verið að ræða um atvinnugrein, ferðaþjónustu, í miklum vexti, fjölda erlendra ferðamanna sem hefur tvöfaldast á tíu árum — samkeppnisstaða greinarinnar er sterk. Með vísan til þessara sjónarmiða og annarra þeirra sem fram koma í nefndaráliti 1. minni hluta leggst þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn frumvarpinu.