142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stundum getur verið skynsamlegt að lækka skatta til að auka umsvif og stækka kökuna. En hér erum við að tala um atvinnugrein þar sem umsvif eru mikil og uppgangur er mjög mikill, væntanlegur.

7% virðisaukaskattur, vegna uppgjörs á inn- og útskatti, skilar nánast engu í ríkissjóð. 14% skattur, það er áætlað að hann skili um 500 milljónum á þessu ári, 1,5 milljörðum á því næsta. Fyrr á þessum þingfundi hefur verið talað dálítið um bága stöðu ríkissjóðs og nauðsyn aga í ríkisfjármálum. Ég sé þau sjónarmið ekki liggja til grundvallar frumvarpinu. Hér erum við einfaldlega að afsala okkur tekjum að ástæðulausu og ég þori að veðja að við verðum ekki sátt við að hafa gert það þegar við ræðum ýmsar upphæðir, ýmiss konar skort á fjármunum í fjárlögum næsta árs.