142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Mig langar að fara yfir nokkur atriði þar sem ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og hef tekið þátt í umræðu um þetta mál þar, í fyrsta sinn eins og gefur að skilja. Ég tek því ekki til mín þær spurningar sem snúast um hvað gert var á síðasta þingi, en þykir samt rétt að byrja á því að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um að þeir sem greiddu atkvæði gegn þessu frumvarpi á síðasta kjörtímabili hefðu ekki gert athugasemdir við það tiltekna atriði hvernig stjórn væri valin.

Í ræðu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hélt um þetta mál, með leyfi forseta, stendur:

„Ég fór yfir í fyrri ræðu minni hvernig menn ætla sér að skipa í stjórn og blanda allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis inn í þann verknað. Ég átta mig ekki alveg á því sem er verið að segja hér af því að við lifum ekki í tómarúmi og þetta frumvarp er væntanlega ekki eina frumvarpið sem við munum ræða í framtíðinni varðandi ríkisstofnanir þar sem ætlunin er að skipa í stjórnir. Er það stefna þeirrar ríkisstjórnar sem leggur málið fram að blanda þingnefndum að jafnaði inn í slíkar skipanir?“

Hér er strax komin athugasemd um þetta og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er einmitt formaður allsherjar- og menntamálanefndar núna. Það er því ekki óeðlilegt að hún komi að þessu máli.

Svo er annað í þessu. Það var verið að tala um það sem ég tel mikilvægast í þessu máli og hefur komið enn skýrar í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu og það er að ábyrgðin er algjörlega óljós. Hver ber ábyrgð á þessum stjórnarmönnum? Valnefndin er skipuð til þess eins að velja stjórnarmennina, en hvað ef eitthvað kemur upp á í stjórn RÚV eða með reksturinn? Hvar liggur ábyrgðin þá? Geta allir bara fríað sig ábyrgð, valnefndin ekki að störfum lengur? Ráðherrann skipaði ekki stjórnina og ekki þingið, heldur valnefndin. Ég held að þetta verði að vera skýrt.

Þetta kom að hluta til fram hjá gestum nefndarinnar. Þeir sögðu: Ábyrgðin er óljós, það er verið að flækja málið. Þetta verður óskýrara og ábyrgð stjórnarinnar verður óljósari og hvernig valið er í stjórnina og annað slíkt. Samt stendur í nefndaráliti minni hlutans að allar umsagnir sem bárust nefndinni um núverandi fyrirkomulag hefðu verið neikvæðar, engin verið jákvæð. Það er bara ekki rétt. Þetta er einmitt eitt atriði sem kom fram hjá nefndinni, að ábyrgðin væri ekki ljós í nýju lögunum, þ.e. hvar hún lægi, hún væri ekki nógu skýr. Einnig kom fram í nefndinni og í umsögnum sem henni voru sendar að núverandi fyrirkomulag hefði virkað mjög vel. Suma langaði bara að lögfesta núverandi stjórnarfyrirkomulag því að þetta hefði gengið svo vel undanfarin fjögur ár. Enginn gat nefnt dæmi um að upp hefðu komið einhver pólitísk vafamál um störf stjórnarinnar. Þvert á móti var sagt: Ástæðan fyrir því hvað núverandi stjórn hefur unnið gott verk og stjórnir þar á undan er sú hvernig hlutverk stjórnar er orðað í núgildandi lögunum.

Þess skal getið að þetta kom allt saman fram í máli stjórnarmanna, í máli starfsmanna Ríkisútvarpsins og í umsögnum sem voru sendar til nefndarinnar þar sem kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við frumvarpið, þ.e. breytingarnar sem við erum að ræða núna. Svo stendur í nefndaráliti minni hlutans að engin jákvæð umsögn hafi komið.

Það er hins vegar önnur mun stærri villa í nefndaráliti minni hlutans, sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er búin að biðja um að verði leiðrétt. Það breytir samt mjög miklu ef það hefur verið skoðun minni hlutans allan tímann að valnefndin ætti að vera skipuð tíu fulltrúum, af því að ef ráðherrann hefði skipað fimm fulltrúa og þingið þrjá í gegnum (SSv: … textann.) allsherjar- og menntamálanefnd þá hefði náttúrlega þessi pólitíska ábyrgð strax orðið mikið ljósari. Þetta er í upphafi nefndarálitsins og ótrúlegt að það hafi farið í gegn eftir yfirlestur, en þetta hefur verið leiðrétt eins og ég kom inn á.

Fyrir mér lítur þetta því þannig út að ábyrgðin verði skýrari með því að þingið velji í stjórn, en þegar þingið velur tel ég eðlilegt, eins og hefur verið rætt hér fyrr í dag, að formenn þingflokkanna tali aðeins saman og sýni á spilin til þess að tryggja að stjórnin verði faglega skipuð. Við skulum líka hafa það í huga að hún hefur verið faglega skipuð undanfarin fjögur ár samkvæmt flestum sem komu fyrir nefndina og þeim umsögnum sem nefndinni bárust, Sjálfstæðisflokknum var meira að segja sérstaklega hælt fyrir þann sem hann skipaði í stjórn RÚV.

Einnig er lagt til að stjórnin verði skipuð sjö mönnum en hún er nú skipuð fimm mönnum. Þá minnkar náttúrlega vægi hvers og eins stjórnarmanns þannig að hin faglegu áhrif ættu frekar að nást fram og einhverjir hagsmunir hafa síður áhrif. Það kom einmitt fram í nefndinni líka að með því að blanda einhverjum vissum hagsmunahópum inn í valnefndina gætu vissir einstaklingar sem hafa verið skipaðir í stjórn litið svo á að þeir væru skipaðir fyrir einhverja hagsmunahópa. Það kom nefnilega alveg skýrt fram að allir sem hafa setið í síðustu stjórnum RÚV hafa litið á sig sem fulltrúa Ríkisútvarpsins og borið hag þess fyrir brjósti en þeir höfðu áhyggjur af því að ef einhverjir hagsmunahópar hefðu valið þá í stjórnina hefðu þeir frekar unnið að hagsmunum þessara hagsmunahópa en Ríkisútvarpsins sjálfs.

Þetta mál er allt saman skýrt og þarf ekkert að lengja það mikið frekar. Þó að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hafi kvartað undan því að nefndarálitið sé stutt og frumvarpið sjálft er það náttúrlega bara af umhverfissjónarmiðum til þess að spara pappír því að þetta er ekki það flókið mál og liggur nokkuð ljóst fyrir.

Ég segi það bara fyrir mitt leyti að því meira sem ég skoða þetta mál þeim mun sannfærðari verð ég um að við séum að gera rétt með því að breyta þessu.

Þess skal líka getið að allir sem hv. þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd óskuðu eftir að kæmu fyrir nefndina komu.

Að lokum vil ég segja að þótt minni hlutinn segi að þetta sé ekki mikilvægt mál og skilji ekki hvað liggur á þá sýnist mér þetta vera nokkuð mikilvægt og stórt mál miðað við þá athygli og þá umræðu og það upphlaup sem það veldur minni hlutanum í þinginu.

Svo langar mig að koma inn á eitt. Það hefur verið nefnt að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi áheyrnarfulltrúa í stjórn RÚV. Ég tel að stjórnin sjálf geti ákveðið að bjóða starfsmönnum að hafa áheyrnarfulltrúa og tel það bara jákvætt og ekkert sé því til fyrirstöðu að þeir eigi þarna áheyrnarfulltrúa.

Ég vil ljúka máli mínu á því að leggja áherslu á að meiri hlutinn bendir á að valnefndin beri „enga ábyrgð gagnvart kjósendum og engin trygging er fyrir því að nýtt fyrirkomulag, sem 9. gr. laganna felur í sér, stuðli að markmiðum laganna eins og þeim er lýst í 3. gr. laganna, þ.e. stuðli að því að félagið þjóni lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum íslensks samfélags“. Ábyrgðin er miklu skýrari með því að þingið kjósi beint í stjórn.