142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:36]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur tillaga hæstv. menntamálaráðherra um val stjórnarfólks í RÚV. Um er að ræða fjölmiðil í almannaþágu eins og titill laganna gefur til kynna.

Það eru þrjár spurningar sem ég vil velta upp í þessu samhengi og stóra spurningin er auðvitað þessi: Hvernig er það tryggt að miðillinn verði í almannaþágu?

Í annan stað: Að hve miklu leyti eiga ráðandi öfl hvers tíma að hafa áhrif á umræður í samfélaginu?

Í þriðja lagi: Hvernig er hægt að tryggja lýðræðislega starfshætti við rekstur miðilsins?

Þetta eru þrjár veigamiklar spurningar sem hljóta að snúa að markmiðum þess frumvarps sem fyrir liggur. Við þurfum að velta þeim fyrir okkur.

Sjálfur var ég rétt í þessu, bara núna í morgun að koma úr austurvegi og þar sem ég er alinn upp á lokaspretti kalda stríðsins var mér vel kunnugt um hvernig upplýsingamiðlun var háttað þar austur frá, yfirleitt í nafni sannleika, enda hét blaðið Pravda, eins og þið munið kannski eftir. Í vor var samþykkt frumvarp, m.a. með atkvæðum framsóknarmanna, sem hafði það að markmiði að skera endanlega eða eins og hægt væri á tengsl stjórnmálaafla og fjölmiðlunar. Markmiðið með lögunum sem samþykkt voru í vor með öllum atkvæðum, m.a. framsóknarmanna, með einhverjum mótatkvæðum sjálfstæðismanna, var fagmennska, lýðræði og traust, að byggja upp traust á fjölmiðlun í landinu á grunni fagmennsku og lýðræðis. Frumvarpið sem samþykkt var í vor, m.a. með atkvæðum framsóknarmanna, átti að tryggja sjálfstæði RÚV. Það byggði á sænskri fyrirmynd og eru fordæmi um það víða í nágrannalöndunum; í Danmörku, Noregi og Englandi, þó að útfærslur í hverju landi séu ólíkar.

Sjálfstæði byggt á fagmennsku, lýðræði og trausti umfram allt tryggir RÚV ásamt öðrum fjölmiðlum hlutverk sitt sem fjórða valdið og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi í ræðu sinni áðan. Það hefur nefnilega löngum verið svo að fjórða vald fjölmiðla verið óvirkt á Íslandi vegna þess að fjölmiðlar hafa gengið erinda ákveðinna hagsmunaaðila. (Gripið fram í.) Fjölmiðlar hafa verið málpípur þar sem ákveðnum sjónarmiðum hefur verið beint í gegn. Leggja þarf áherslu á það í stjórn opinberra fjölmiðla að enginn gangi sérstakra erinda neins heldur sé um fagfólk að ræða, áherslan á að vera á fagmennsku, hún á að vera undirstaða traustsins á miðilinn. Í því samhengi verðum við að hafa í huga að RÚV gegnir lykilhlutverki í menningu og samfélagi þjóðarinnar.

Hæstv. forsætisráðherra hefur orðið tíðrætt um þjóðmenningu án þess svo sem að skilgreina sérstaklega í hverju hún felst. Menning er hins vegar lifandi afl á hverjum tíma, menning breytist og er lifandi kvikt afl í samfélaginu. Menningunni verður að veita lífsanda, hún verður að geta þrifist, hún verður að hafa rými til að þrífast, það verður að vera tækifæri fyrir hana til að þrífast og gegnir RÚV þar lykilhlutverki.

Því hlutverki er viðhaldið með lögbundnu hlutverki RÚV sem snýr að því að miðla upplýsingum og miðla þekkingu úr öllum hornum samfélagsins, úr öllum kimum samfélagsins og af öllum hornum landsins. Við skulum ekki gleyma því að RÚV er miðill allra landsmanna. Hvernig verður slíkt tryggt með skipan þings á stjórn andstætt breiðri stjórn með aðkomu fjölda ólíkra hópa? Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra að því hvernig hann sér fyrir sér að þingið tryggi þá aðkomu ólíkra sjónarmiða úr ýmsum kimum samfélagsins og af öllum hornum landsins ef þingið sér eitt um að skipa stjórn RÚV.

Við höfum fordæmi fyrir því hvernig hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir sér skipan í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem hann virðist hafa mjög ákveðnar hugmyndir um hverjum sé treystandi; þeir þurfa helst að koma úr hans eigin ranni.

Fyrst starfsmenn voru nefndir hér áðan þá segir eftirfarandi í umsögn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins um málið, með leyfi forseta:

„Stjórn starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins (RÚV) harmar að fulltrúi Starfsmannasamtakanna verði ekki í stjórn …“

Þeir voru meira að segja búnir að kjósa fulltrúa sinn núna á vordögum, en hann fær sem sagt ekki að vera með. Menn tala um að mögulega verði hægt að leyfa þeim áheyrn á fundum stjórnarinnar eftir smekk og „behag“ stjórnarinnar, en það er ekki í anda þeirrar fagmennsku sem mér var tíðrætt um áðan, ekki í anda lýðræðisins, þ.e. lýðræðislegra starfshátta innan stofnunarinnar sem endurspeglar aftur það lýðræði sem RÚV á að vera vakandi afl yfir. Starfsmenn RÚV eru nefnilega fagfólk, fagfólk á sviði miðlunar, í menningu, fagfólk á sviði miðlunar þekkingar og upplýsingaöflunar, gegnsærrar, gagnrýninnar og upplýstrar þekkingarmiðlunar og gagnaöflunar.

Ég hef áhyggjur af því hvert við stefnum núna með hinu nýja frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, töluverðar áhyggjur. Það er skref til baka eins og hér hefur verið sagt. Það er skref aftur í pólitíska stýringu á miðlun upplýsinga og þekkingar í landinu. Það er vont, það er áhyggjuefni.

Í því samhengi og að lokum langar mig til að minnast á pistil Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag. Í þeim pistli biðlar hann til útgerðarmanna um að skila okkur aftur Morgunblaðinu. Ég velti fyrir mér hvort við stöndum hér í púlti eftir eitt eða tvö ár og biðlum til valdhafanna um að skila okkur, fólkinu í landinu, aftur RÚV.