142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er vandaður maður og heiðarlegur. Það er meira að segja gaman að því þegar hann reynir að segja brandara, því að ég tók það sem brandara þegar hv. þingmaður sagði að það væri alls ekkert víst að Sjálfstæðisflokkurinn mundi endilega skipa þarna mann sem væri utan Sjálfstæðisflokksins. Hvenær hefur það gerst? Hvenær í 51 árs sögu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands á lýðveldistímanum hefur það gerst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipað einhvern í stjórn RÚV sem ekki var blár í gegn, meira að segja helblár? Eins og ég rifjaði upp í ræðu minni áðan var hin fyrsta ganga hæstv. menntamálaráðherra nokkuð skýr. Hann skipaði í stjórn LÍN. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gæti kannski rifjað upp með mér hvaðan þeir menn komu. Þeir voru allir sjálfstæðismenn.

Þess utan held ég líka að það sé algjörlega ljóst að í þessu máli hefur Sjálfstæðisflokkurinn klárað málið í samningum við Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn studdi hina fyrri skipan málsins hér á Alþingi. Meira að segja hæstv. menntamálaráðherra, muni ég rétt, greiddi ekki atkvæði gegn því. Framsóknarflokkurinn sem hefur verið á flótta undan umræðunni — ég hef ekki séð framsóknarmann undir umræðunni í dag — er hér auðvitað svínbeygður. Auðvitað er þetta ekkert annað en skýr viðleitni, meitluð áform Sjálfstæðisflokksins um að ná aftur flokkspólitískri stjórn á Ríkisútvarpinu. Við munum alveg hvernig það var í gamla daga. Hvaðan komu menn sem þangað voru ráðnir? Stundum beint úr Valhöll. Slíka veröld vill Sjálfstæðisflokkurinn byggja aftur, alveg sama hvað hv. þm. Pétur H. Blöndal segir um það.