142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk nú enga skýringu á því að aðrir flokkar ættu að fara að kjósa fólk sem er flokksbundið, sjálfstæðismenn í stjórn RÚV. Ég tel svo ekki vera. Ég held að þeir hafi alveg fulla heimild, Samfylkingin, til að kjósa hvaða fólk sem þeir vilja og telja hæft í stjórn RÚV með eða án flokksskírteinis Samfylkingarinnar.

Ég þekki ekki sögu RÚV það vel að ég viti hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhvern tímann kosið mann í stjórn þar án flokksskírteinis. Ég hef ekki það mikinn áhuga á RÚV. Það er bara mjög einfalt. Ég hlusta mjög sjaldan á RÚV. Ég hlusta í síminnkandi mæli á RÚV eins og fleiri. Netið er að taka yfir sem betur fer og þessi risastóra stofnun sem nýtur skattpeninga er að mínu viti í ákveðinni útrýmingarhættu vegna þess að hún er steinrunnin, pólitísk og verður alltaf pólitísk af því að Alþingi, pólitíkin, hefur fjárveitingavaldið og Alþingi er eini eigandinn, þ.e. ríkisstjórnin er eini eigandinn að þeirri stofnun. Þetta er akkúrat fjölmiðill sem er í eigu eins aðila og þeir sem starfa á þeim fjölmiðli vita hver sá eigandi er og hver borgar saltið í grautinn hjá þeim. Það er alltaf þannig. Þess vegna hafa menn um allan heim áhyggjur af fjölmiðlum sem eru í eigu eins aðila. Alls staðar.

Eflaust er fólk hjá RÚV mjög grandvart og gott, það fari ekkert eftir því hver eigandinn er, fari ekkert eftir fjárveitingum eða neinu slíku, það getur vel verið. En samt hafa menn áhyggjur af því víða um heim að eigandi fjölmiðils sé einn.

Eins og ég sagði hef ég ekki haft mikinn áhuga á RÚV. Ég hef lagt til að selja það og að starfsmennirnir hafi forgang til kaups. Fyrirtækið er náttúrlega ekkert annað en starfsmennirnir og þeir geta örugglega rekið það mjög vel í samkeppni við aðra á þeim markaði.