142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að það hafi komist á hreint að ekkert annað býr að baki þessu máli en pólitísk skoðun ráðherra um að skipa eigi stjórnina með pólitískum hætti eins og lagt er til hér í frumvarpinu.

Hæstv. ráðherra vitnaði til fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra og ræðu hennar í þinginu um þetta mál. Þar kemur meðal annars fram — og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefði átt að lesa aðeins lengur — í ræðu hæstv. fyrrverandi ráðherra segir að miðað við þær forsendur sem gefnar eru, og þá er ráðherra búinn að rekja bæði skipun stjórnar, fjárhagsleg málefni stofnunarinnar og hvað eina, með leyfi forseta: „Miðað við þessar forsendur er það eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi“. Það var meginmarkmið frumvarpsins sem var búið að vera lengi í undirbúningi ólíkt því frumvarpi sem hér um ræðir, sem kemur bara hingað inn upp úr loftinu virðist vera.

Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort samstaða sé um málið í ríkisstjórninni. Ég tek eftir því að (Forseti hringir.) á þeim þremur dögum sem umræðan hefur staðið hérna, meira og minna, hefur enginn framsóknarmaður, ekki einn (Forseti hringir.) framsóknarmaður, hvorki ráðherra né hv. þingmenn, tjáð sig um málið með nokkrum hætti. (Forseti hringir.)