142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar undirbúning og aðdraganda þessa máls er rétt að hafa í huga að fyrirkomulagið sem er við val á stjórnarmönnum í Ríkisútvarpinu hefur verið svo um alllanga hríð og af því er mikil og löng reynsla. Það er því ekki eins og sest hafi verið niður og fundið upp eitthvert algjörlega nýtt fyrirkomulag og ákveðið að henda því athugunarlaust inn í þingið. Það er raunverulega verið að segja með þessu frumvarpi að við leggjum til að fyrirkomulagið sem við höfum haft verði áfram en þó með þeirri breytingu að tveimur mönnum verði bætt við í stjórn. Það er það sem málið allt saman snýr að.

Enn og aftur ítreka ég að hugsunin er þessi, og menn geta kallað hana pólitíska eða hvað sem er, að í raun sé ógagnsætt og ólýðræðislegt að leggja upp með valnefnd með þeim hætti sem þarna var gert, þ.e. þrír frá Alþingi, tveir frá öðrum (Forseti hringir.) tilnefningaraðilum, og ég tel að sú valnefnd mundi ekki hafa þjónað (Forseti hringir.) sínu hlutverki mjög vel.