142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ágætlega lýðræðisleg leið að Alþingi Íslendinga skipi þessa stjórn, þ.e. að einstaklingar sem hafa hlotið til þess umboð frá kjósendum í landinu, beint umboð til að sitja hér og setja lög, fari með sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og að þeir skipi í þessa stjórn. Ég sé í það minnsta ekkert ólýðræðislegt við það.

Ég er ekki alveg viss um þegar ég horfi á þá valnefnd sem lagt var upp með — þar sem áttu að sitja þrír frá hinu sama Alþingi sem í hinu orðinu er svo óskaplega ólýðræðislegt stundum, í það minnsta eins og stundum er talað — þar sem eru þrír skipaðir frá Alþingi og síðan frá tveimur samtökum, að sú valnefnd sé svona stórkostlega lýðræðisleg.

Virðulegi forseti. Þá er eftir sú spurning hvort sú valnefnd sé líkleg til þess að stilla upp breiðari stjórn eða tryggja að það verði breiðari stjórn. Ég er ekkert viss um það heldur. Ég tel að Alþingi Íslendinga geti vel sinnt því hlutverki og gert það mjög vel. Þegar menn skoða samsetninguna hér í þinginu er vandfundinn sá staður, eða auðvitað ófinnanlegur í okkar samfélagi þar sem þingmenn hafa hið lýðræðislega umboð, þar sem jafn fjölbreyttur hópur karla og kvenna kæmi að þeirri ákvörðunartöku.

Síðan verð ég að bæta við að ég tek eftir því að mönnum er auðvitað dálítið umhugað um til dæmis ummæli Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur verið nefndur og allt er það ágætt. Menn verða að muna að það er einmitt hluti af hinu lýðræðislega þjóðfélagi að skoðanir komi fram sem geta jafnvel verið þannig að mönnum finnist þær óásættanlegar, en það er hluti af lýðræðinu. Hvernig í ósköpunum á það að vera grundvöllur að einhverjum samsæriskenningum þótt Davíð Oddsson lýsi með opinberum (Forseti hringir.) hætti skoðunum sínum í Morgunblaðinu? Annaðhvort væri nú, virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér er nokkuð brugðið (Forseti hringir.) við þetta.