142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir prýðilega ræðu. Að ýmsu leyti skýrði hann sumt út, að minnsta kosti fyrir mér, sem mér fannst torskilið áður. Mér fannst til dæmis torskilið hvernig á því stæði að hæstv. menntamálaráðherra teldi nauðsynlegt að hafa það sem sitt fyrsta verk að leggja fram frumvarp til að breyta lögum sem hann sjálfur var ekki á móti. En hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt í sinni ræðu að hann hafi hugsað það mál betur frá því að hann var haldinn því skoðanaleysi að sitja hjá á sínum tíma og ég tek það bara gott og gilt.

Ég er hins vegar algerlega ósammála honum um að Alþingi sé hinn rétti vettvangur eða sá breiðasti til að láta velja stjórn Ríkisútvarpsins en það hefur þá góðu kosti fyrir hæstv. ráðherra að þar liggur alveg skýr meiri hluti. Það er auðvitað það sem hæstv. ráðherra er á eftir og ekkert annað. Það er alveg sama hversu málefnalegar og langar ræður hæstv. ráðherra heldur um hið gagnstæða, reynslan sýnir að það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill.

Ég virði það hins vegar við hæstv. ráðherra að hann er reiðubúinn til að skoða hvort hægt sé að finna einhvern sáttaflöt í þessu máli. Ég hef frá mínum bæjardyrum séð lagt mikla áherslu á að staða starfsmanna sé trygg innan stofnunarinnar og við stjórn hennar. Í orðaskiptum mínum og hv. þm. Vilhjálms Árnasonar hér fyrr í dag kom fram að sá ágæti nýi þingmaður taldi það alveg einnar messu virði að ræða hvort binda ætti í lög að starfsmenn hefðu sinn fulltrúa í stjórninni. Ég innti hæstv. menntamálaráðherra eftir afstöðu hans til þess og í ljós kom að hæstv. ráðherra hefur vaknað þannig í morgun að hann er á sáttabrókum þegar líður að lokum dags. Það er ég líka.

Ef efni eru á bak við það sem hæstv. ráðherra sagði, að honum fyndist vel koma til greina að það yrði skoðað í þingnefnd milli 2. og 3. umr. að reyna að ná sátt sem byggði á því að binda í lög aðkomu starfsmanna, finnst mér að við eigum að skoða það. Ég er þeirrar skoðunar. Ef hæstv. ráðherra beitir sér fyrir því að hans ágætu fulltrúar, eða þeir sem kunna að vera nálægt honum, og pólitískir venslamenn í nefndinni, hagi sér með þeim hætti og birti þá afstöðu þá er ég til í að íhuga málið. Það þýðir ekki, eins og hæstv. ráðherra var nægilega vandaður til að benda á, að menn mundu endilega fallast á allt sem í frumvarpinu væri en snöggtum skárra yrði það, það tel ég.

Herra forseti. Eins og ég drap á í fyrri ræðu minni í dag vil ég segja að ég lít svo á að augljóst samhengi sé á milli þessarar viðleitni hæstv. ríkisstjórnar til að ná tökum á Ríkisútvarpinu annars vegar og hins vegar þess hvernig stjórnmálamenn og forustumenn ríkisstjórnarinnar eru þessa dagana að taka til máls um fjölmiðla. Ég les grein hæstv. forsætisráðherra, sem er ein linnulaus samfelld árás á fjölmiðla landsins, saman við frumvarpið sem við ræðum hér. Ég lít svo á að hæstv. forsætisráðherra sé að ógna fjölmiðlamönnum landsins og ég les það í samhengi við það að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin saman er með þessu frumvarpi að reyna að ná pólitískum tökum á Ríkisútvarpinu. Að sjálfsögðu skiptir það máli þegar hæstv. forsætisráðherra skrifar grein, birtir á miðopnu Morgunblaðsins, undir titlinum „Fyrsti mánuður loftárása“. Ég hélt að greinin væri nú aðallega ádeila á stjórnarandstöðuna, og að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur greinilega ákaflega þunnt hörund, væri að kveinka sér undan henni. En þegar ég les greinina þá er svo ekki. Þetta er árás á fjölmiðla.

Hæstv. forsætisráðherra kvartar undan því að fjölmiðlar landsins veiti viðhorfum sem spretta upp í samfélaginu og eru öndverð ríkisstjórninni farveg. Það er með ólíkindum að lesa það að hæstv. forsætisráðherra segir að svo aumir séu fjölmiðlar landsins að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós að hann verði ekki stórfrétt. Hörð gagnrýni á hverja? Til dæmis á Ríkisútvarpið því þegar maður les þetta í gegn þá kemur í ljós hvað það er sem liggur að baki hjá hæstv. forsætisráðherra.

Hann segir að Ríkisútvarpið hafi birt allt of margar fréttir af söfnun undirskrifta gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lækkun veiðigjalds. Hann segir að jafnvel augljósustu áróðursbrellur í atvinnuveganefnd þingsins verði að stórfrétt og fyrstu fréttum. Hann telur það alveg sérstaklega slæmt að einstaklingur, sérfræðingur úti í bæ, sem hefur viðrað skoðanir á tilteknum málum sem honum eru andstæðar — að fjölmiðlar skuli hafa leyft sér að leita eftir áliti hans. En það allra versta finnst honum þó að Ríkisútvarpið skuli hafa leyft sér þá ósvinnu að hafa samband við formann Samfylkingarinnar, sem meira að segja var staddur í Búlgaríu, til að fá álit hans.

Hæstv. forsætisráðherra segir að með þessu hafi Ríkisútvarpið í reynd verið að misnota sína stöðu til að kynda undir undirskriftasöfnuninni. Einhverjir mundu kalla þetta paranoju, einhverjir mundu kalla þetta þunnt hörund forsætisráðherra. Ég kýs að kalla þetta hótanir hæstv. forsætisráðherra í garð fjölmiðlamanna sem starfa hjá hinu opinbera. Það er ekki hægt að lesa það með öðrum hætti og þegar þetta er síðan tengt við það frumvarp sem við ræðum hér, þar sem ríkisstjórnin er að ná pólitískum undirtökum í stjórn stofnunarinnar, þá segi ég: Hingað og ekki lengra. Svona getur ríkisstjórn hvorki leyft sér að tala né vinna. Ég hélt að þessir tímar væru liðnir. Ég hélt að þeir væru horfnir með þeim áratug sem fylgdi Davíð Oddssyni sem leyfði sér það aftur og aftur að beita þöggunarofbeldi, gagnvart fólki í eigin flokki, gagnvart sérfræðingum við háskólann en líka fjölmiðlamönnum.

Við þekkjum það alveg hvernig sá ágæti maður á sínum tíma hundelti einstaka fréttamenn sem unnu hjá ríkisfjölmiðlunum og við vitum það líka að menn hafa verið flæmdir þaðan í burtu. Það er þetta sem ég óttast. Þegar ég les það og heyri hversu mikla áherslu hæstv. ríkisstjórn leggur á að ná því fram sem einu af sínum fyrstu málum að ná pólitískum meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins þá bregður mér. Þegar ég svo að segja á sama degi les þessa grein hæstv. forsætisráðherra, „Fyrsti mánuður loftárása“, þar sem verið er að kvarta undan því að hann hafi þurft að sæta því, og ríkisstjórnin, að sitja undir loftárásum fjölmiðla og stjórnarandstöðu á sínum fyrsta mánuði.

Ég verð að segja að ég er hræddur um að hæstv. forsætisráðherra bregði í brún þegar stjórnarandstaðan fer fyrst fyrir alvöru að hleypa af sínum byssum. Ekki er hægt að segja annað en að á þessu sumarþingi hafi verið tekið silkihönskum á ríkisstjórninni. Það er fyrst og fremst hún sjálf sem hefur troðið í sitt eigið spínat. Það sem hefur orðið tilefni gagnrýni úti í samfélaginu á hæstv. ríkisstjórn eru mistök hennar eigin ráðherra. Það eru fá mál sem menn hafa beinlínis beint byssum að gagnvart ríkisstjórninni sem hafa komið í gegnum þingið. Það eru fyrst og fremst ummæli einstakra ráðherra og ég get fallist á það, ummæli einstakra ráðherra Framsóknarflokksins fyrst og fremst, sem hafa valdið því.

Herra forseti. Þetta vildi ég draga inn í þessa umræðu vegna þess að þetta er skylt mál. Við sjáum þarna birtast á tveimur vængjum það sem ég kalla ekkert annað en markvissa viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ná tökum á opinberum fjölmiðlum og stýra gjörðum og ákvörðunum fjölmiðlamanna, annars vegar umrætt frumvarp og hins vegar þessi grein hæstv. forsætisráðherra sem er ekkert annað en hótun í garð fjölmiðla. Og ég er viss um að hún mun hrífa. Ég er til dæmis sannfærður um að ekki verður sagt frá þessari umræðu og því með hvaða hætti brugðist var við grein forsætisráðherra og hún tengd við frumvarp ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum í kvöld.