142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé mér sammála um að betra sé að stjórnmálamenn tali hreint út, segi hug sinn og lýsi skoðunum sínum. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra hafi gert það í þeirri grein. Hann segir það sem honum finnst.

Ég hjó líka eftir því í umræðunni um Ríkisútvarpið áðan að dregið var inn í umræðuna hvernig ég skipaði í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég man eftir því þegar hæstv. þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tók við embætti í janúar 2009 að eitt fyrsta verka hennar var að reka þáverandi stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, alla pólitískt skipuðu fulltrúana, og setja eins og orðað var sína trúnaðarmenn til starfa. Ég tel að miklu hreinlegra sé, eins og var í því tilfelli hjá hæstv. þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að gera það af því að hún bar ábyrgð á þeirri stjórn og eðlilegt væri af hennar hálfu að trúnaðarmenn hennar sætu þar.

Ég tel að það sé þannig með umræðu og ábyrgð að betra sé að menn komi hreint fram og segi skoðun sína og betra sé að ábyrgðin sé skýr og menn standi við hana og tryggi að þeir séu þá í færum til að standa undir þeirri ábyrgð, rétt eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gerði árið 2009 gagnvart stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Ég held að betra sé að hafa þetta svona, virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að heyra hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé ekki sammála mér í því að betra sé að hafa þessa hluti uppi á borðum. Þá er hægt eins og til dæmis varðandi grein hæstv. forsætisráðherra að bregðast við henni, bregðast við þeim skoðunum sem þar koma fram og rökræða verði um það, rökræða verði um hvernig Ríkisútvarpið sinnir hlutverki sínu o.s.frv. (Forseti hringir.) Ætli það sé nú ekki betra, virðulegur forseti, að hafa það þannig?