142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur ítreka ég þá skoðun mína að ég tel að það sé miklu heppilegra, betra og heilbrigðara að hæstv. forsætisráðherra reifi skoðanir sínar opinberlega, segi það sem honum finnst, það sem honum býr í brjósti. Þá geta hv. þingmenn, til dæmis hv. þm. Össur Skarphéðinsson, brugðist við og úr því verður einhvers konar umræða, það verður debatt. Það er ágætt. Það er miklu verra þegar menn kúldrast einhvers staðar úti í horni í fýlu og koma ekki fram með skoðanir sínar, af því að menn hafa kannski áhyggjur af umræðunni, vilja ekki segja það sem þeim finnst, það sem þeim býr í brjósti. Við höfum ekkert að gera með slíka stjórnmálamenn í raun og veru, virðulegi forseti. En eins og við þekkjum kannski kostar það ákveðið hugrekki að koma fram með skoðanir sem menn vita að verða umdeildar. Auðvitað hefur hæstv. forsætisráðherra vitað að þetta yrði umdeild skoðun, hann gat sagt sér það sjálfur, hún mundi kalla fram viðbrögð eins og þau sem komu hérna frá hv. þingmanni.

Virðulegi forseti. Það er svona ákveðin tegund af samsæriskenningum að tengja þessa hluti saman. Enn og aftur. Starfssvið stjórnarinnar liggur fyrir í lögunum. Eina sem hefur breyst er það sem snýr í raun og veru að því að stjórnin komi að langtímastefnumótun varðandi dagskrárgerðina. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir hvert starfssvið stjórnarinnar er. Ætla síðan að búa til þennan vef, vefa þann vef sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir með því að tengja þessi mál saman — ég tel það bara eitt af þeim dæmum sem ég nefndi áðan þar sem menn fara svolítið fram úr sér í umræðunum. Það er miklu skynsamlegra að horfa nákvæmlega á hvað það er sem er verið að leggja til og leggja mat á það en ekki búa til einhverja stöðu og leggja svo mat á hana.

Við megum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að í raun og veru er það eina að gerast að það fyrirkomulag (Forseti hringir.) sem verið hefur um áraraðir verður áfram verði frumvarpið að lögum með þeirri einu breytingu að tveir stjórnarmenn bætast við í stjórnina. (Gripið fram í.)