142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði eftir 2. umr. um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, val stjórnarmanna. Þetta er afspyrnuvont mál, illa undirbúið og ekki nýrri ríkisstjórn til framdráttar á nokkurn hátt. Það er ekki ein einasta umsögn sem mælir með þessu máli. Þetta er mál sem á að bíða, sem á að draga til baka og hæstv. ríkisstjórn ætti að bera til þess gæfu að gera það þannig. Hér hefur ekki einn einasti framsóknarmaður talað. Ég tel það rétt að Framsóknarflokkurinn gangi fram fyrir skjöldu og geri grein fyrir 180° viðsnúningi sínum í þessu máli. Það væri flokknum til sóma að gera það hér á sínum fyrstu skrefum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þannig að við föllum ekki í þá freistni að líta svo á að þeir séu fallnir í gamalt, banvænt faðmlag við Sjálfstæðisflokkinn.

Þingflokkur VG greiðir atkvæði gegn þessu máli.