142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því framtaki að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við píratar erum almennt mjög lýðræðissinnaðir og mjög hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum, sérstaklega af því að búið er að lofa þeim trekk í trekk í kosningabaráttu. En það eru ein skilaboð sem mér finnst mjög mikilvægt að allir hv. þingmenn taki til sín, þau eru þessi: Í hvert sinn sem þjóðin er spurð álits og það er í andstöðu við það sem ríkisstjórn hefur ákveðið þá fara stjórnmálamenn jafnan út í það að skamma hver annan fyrir að vera ekki sammála þjóðinni.

Það er enginn flokkur á þingi núna sem hefur tilkall til meira en helmings þjóðarinnar og engin ríkisstjórn hefur stuðning 100% þjóðarinnar. Það var aldrei þannig og verður sennilega aldrei þannig, vonandi ekki.

Þegar við meðhöndlum eitthvað jafn heilagt, þori ég að segja, og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar þá ættum við að bera meiri virðingu fyrir þeim rétti en að nota hann sem pólitískt bitbein. Ef svo ólíklega vill til að þetta verði samþykkt af þessu þingi ætla ég að biðja hv. þingmenn um að sýna þjóðinni virðingu þegar hún gengur til atkvæðagreiðslu, að sætta sig við niðurstöðuna og reyna að líta á þjóðaratkvæðagreiðslu sem eitthvað jákvætt í framtíðinni, eitthvað sem stjórnmálamenn eiga ekki að forðast. Það er nefnilega einn steinninn í götu beins lýðræðis á Íslandi að stjórnmálamenn hugsa með sér, svolítið með réttu að verði haldin hér þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað sem þeir standa með eða gegn andstætt þjóðinni séu þeir í reynd að leggja sinn pólitíska feril að veði eða í það minnsta að hætta á ofboðslega harða gagnrýni. Sú gagnrýni er gagnslaus.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er hennar og bara hennar. Hann er ekki gjöf okkar til þjóðarinnar heldur réttur hennar.