142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu sem ég var að öllu leyti sammála nema einu. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, orðaði það með þessum hætti: Ef svo ólíklega vill til að þessi tillaga verði samþykkt. Ég er honum algjörlega ósammála um að það sé ólíklegt. Eins og ég rakti í ræðu minni eru mörg rök með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða sveitarstjórnarkosningunum, en ég rakti það líka fyrir hv. þingmann, sem hann þekkir auðvitað jafn vel og ég að í reynd, í þeirri stöðu sem er komin upp, hafa allir stjórnmálaflokkar sagt að þeir vilji hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að það eigi að vera á fyrri hluta kjörtímabilsins og hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur sagt að honum sé eiginlega giska sama hvenær það eigi að verða, hann hefur margítrekað það við fjölmiðlamenn. Ég deili því ekki þeirri trú eða vantrú hv. þingmanns á þingheimi. Ég held satt að segja að það sé í þágu allra að við fáum hreinar línur í þetta mál. Hvað er þá betra en að gera það með hætti sem líklegastur er til þess að leiða fram hvað mest afgerandi niðurstöðu? Það er samhliða öðrum kosningum eins og sveitarstjórnarkosningum sem við vitum að er jafnan mikil þátttaka í.

Ég held að það sé besta aðferðin til að leiða fram mjög skýran og yfirgnæfandi vilja og ég held að allir mundu hlíta þeirri niðurstöðu ef hún yrði á annan veg en ég kysi, þá mundi ég vakna hundfúll daginn eftir en þá yrði bara næsta mál á dagskrá. Ég held að það sé þarft að fá þessar línur á hreint. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það?