142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

8. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Haraldur Einarsson spyr: Af hverju að kjósa um þetta núna eða ákveða þetta núna? Ástæðan er sú — ég man þegar fjölmiðlalög voru samþykkt á Alþingi sem var síðan hafnað af forseta lýðveldisins. Það hafði ekki gerst áður þannig að það ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en það gerðist svolítið merkilegt við þann gjörning, skyndilega fór fólk að taka þátt í umræðunni sem hafði aldrei áður tekið þátt í henni. Það er vegna þess að þegar þjóðin skynjar að hún hefur raunverulegt vald fer hún kannski stundum að hugsa til þess að hún ætti að nýta það á skynsaman hátt. Eins og það er núna, þar sem völdin liggja yfirleitt hjá einhvers konar fulltrúum, er nóg fyrir marga, jafnvel flesta, að bölva þeim í stað þess að láta þjóðina sjálfa ráða þessu þannig að hún hafi fullt tækifæri og fullt erindi til að ræða það með hliðsjón af því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þá geti niðurstaðan orðið sem lýðræðislegust.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort samningar séu á leiðinni. Nei, ekki í augnablikinu, en það er vegna þess að búið er að stöðva samningaviðræðurnar og um að gera að kjósa sem fyrst um það hvort við eigum ekki að halda þeim áfram. Síðast en ekki síst nefnir hv. þingmaður það aftur þegar verið er að innleiða ýmislegt frá Evrópu. Það er óhjákvæmileg afleiðing af því að vera í EES og við erum ekkert að fara út úr EES jafnvel þótt við sleppum því að kjósa um þetta.