142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Allt frá þeim degi sem hægri stjórnin var kynnt til leiks upp úr miðjum maí hafa formenn flokkanna tveggja lagt mjög ríka áherslu á fjármál ríkisins og efnahagsmál. Þeir hafa dregið upp afar dökka mynd af efnahagsmálunum hér á landi og þóst hafa miklar áhyggjur af þeim. Og það er rétt að hafa áhyggjur af fjármálum ríkisins eftir þær hremmingar sem við urðum fyrir fyrir ekki mörgum árum.

Því hefði mátt ætla að ríkisstjórnarflokkarnir kæmu inn með mál um ríkisfjármálin sem væri ætlað að bæta fjárhagsstöðu ríkisins og styrkja efnahagsáætlunina. Því er öðru nær. Öll mál sem hingað koma inn, hvert einasta mál, er til að auka á útgjöld ríkisins. Við getum nefnt veiðigjöldin, virðisaukaskattinn, mál sem verður rætt hér síðar í dag og fleiri auk þess sem formaður fjárlaganefndar lýsti hér yfir í gær að 12–13 milljarðar yrðu settir strax í rekstur (Gripið fram í.) Landspítala – háskólasjúkrahúss. Klár greining liggur fyrir um málið af hálfu Framsóknarflokksins, sagði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.

Samanlagt auka þau mál sem hingað hafa komið af hálfu ríkisstjórnarinnar halla ríkissjóðs um 33–35 milljarða kr. Það er að meðaltali 1 milljarður á dag sem stjórnarflokkarnir eru að auka halla ríkissjóðs. Enn er ekki komin ein einasta tillaga um það hvernig á að mæta þeim halla, ekki ein tillaga. Viðbrögð stjórnarflokkanna og formanna þeirra við þeim vanda sem blasir við í efnahagsmálum hafa ekki verið þau að bregðast við heldur að framleiða óvissu. „Að framleiða óvissu“ er yfirskrift ritstjórnargreinar Fréttablaðsins í dag sem fjallar nákvæmlega um þetta mál. Það er það sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera. 1 milljarður á dag í aukinn halla á ríkissjóð.