142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að athuga hvað ég kemst yfir mikið í andsvarinu. Í stjórnarsáttmálanum er talað um leiðréttingu á frítekjumörkunum. Hér er hins vegar gengið lengra, teknar eru til baka þær skerðingar sem var farið í á grunnlífeyrinum og lífeyrissjóðstekjunum.

Þegar ég fór að vinna að því að standa við kosningaloforð stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmálann var eitt af því sem við uppgötvuðum við yfirferð yfir fjárlagagerð og langtímaáætlun ríkissjóðs að ekki virtist hafa verið gert ráð fyrir því í langtímaáætlun ríkissjóðs. Í kostnaðarmatinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Í forsendum ríkisfjármálaáætlunar sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár í samstarfsáætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið gengið út frá því að þessi tekjutenging“ — og þá er átt við skerðingarhlutfallið — „yrði framlengd eða gerð varanleg eða að gerðar væru jafngildar ráðstafanir …“

Þegar langtímaáætlun í ríkisfjármálunum var lögð fram og talað fyrir henni virðist fyrrverandi ríkisstjórn, sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sat í, einfaldlega hafa gert ráð fyrir því að þessar skerðingar yrðu til frambúðar. Þetta var eitt af því sem velferðarráðuneytið þurfti að fara mjög vel í gegnum, þ.e. hvernig væri best að nálgast þetta. Niðurstaða okkar varð að leggja til að forgangsraða svona. Við byggjum það á þeim upplýsingum sem voru teknar saman og meðal annars kynntar á ársfundi Tryggingastofnunar um það hvernig ráðstöfunartekjur lífeyrisþega hefðu þróast á þeim árum frá því að farið var í skerðingarnar. Þar kom fram umtalsverður munur á þeim kaupmáttarskerðingum sem höfðu orðið á þeim hópum sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun.

Niðurstaða okkar varð að best væri (Forseti hringir.) að hefjast handa við þetta, eins og ég lagði hér áherslu á, og mikilvægt væri að (Forseti hringir.) þetta væri fyrsta skrefið. Við munum halda áfram að vinna í afnámi á skerðingum fyrri ríkisstjórnar.