142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tilgreindi sérstaklega í ræðu minni mikilvægi þess að við vöndum til verka þegar kemur að heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Ráðuneytið er að fara í gegnum þær athugasemdir sem komu fram við það frumvarp sem fyrrverandi velferðarráðherra flutti. Þær voru mjög umfangsmiklar og sneru þá líka að því að skoða þyrfti betur þá þætti sem ég nefndi í lokaorðum í framsöguræðu minni, sjónarmið sem snúa þá að öryrkjum sérstaklega.

Ég vil hins vegar taka fram að ég tel mjög mikilvægt að við vinnum áfram að heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þetta er það stórt kerfi, það skiptir okkur það miklu máli að mjög mikilvægt er að við vöndum til verka og reynum að ná sem mestri pólitískri sátt um þetta stóra verkefni.