142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn á ný er þetta orð ekki alveg rétt, þetta á ekki að vera neins konar andsvar heldur eiginlega meðsvar.

Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma fram með þetta frumvarp og í raun og veru líka næsta mál. Dóttir mín á afmæli í dag þannig að ég þarf víst að víkja af fundi, en ég vildi koma hingað upp og ítreka að ég tel mjög mikilvægt sem nýr ráðherra þessa málaflokks þar sem ég tek við keflinu frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að halda áfram endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Slysatryggingar eru hluti af því hvernig við viljum standa að því og við erum ekki hætt. Við munum halda þeirri vinnu áfram. Það hefur mjög mikil vinna verið lögð í þennan málaflokk í velferðarráðuneytinu á vegum hv. þingmanns og annarra flokksfélaga hans sem hafa setið í þessu ráðuneyti undanfarin ár. Það liggja fyrir tillögur. Þær eru eitt af þeim gögnum sem við viljum horfa til þegar við vinnum þetta áfram og ég er sannfærð um að við getum fundið leið til að vinna saman að því að bæta kerfið þó að að sama skapi leggi stjórnvöld líka áherslu á að endurmeta þessi áform um breytingar á almannatryggingunum.