142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ágæta ræðu og ágæta yfirferð yfir málið.

Mig langar til að spyrja tveggja spurninga. Annars vegar varðar það aðgreiningu slysatrygginga frá skaðabótalögum þar sem menn lenda í slysi sem einhver þriðji aðili ber ábyrgð á, það á t.d. við um bílatryggingar og annað slíkt, þegar um er að ræða að menn eru jafnframt í vinnu, hvernig aðgreina menn það?

Síðan er það spurningin um örorkubæturnar í 11. gr. sem ég er alltaf jafn hissa á. Þar er greidd full örorka fyrir 75% örorku, síðan lækkar það um 2% fyrir hvert prósentustig niður í 50% og eftir það má greiða eingreiðslu. Hvers vegna er 75% örorka full örorka? Menn geta þá væntanlega unnið 25% og hvað er þá verið að bæta? Af hverju fær fólk sem er 40% öryrkjar ekki bætur reglulega ef það getur unnið 60% og vantar 40% af tekjunum, af hverju fær það þá bara eingreiðslu sem reynslan hefur sýnt að gufar mjög fljótt upp vegna mikils fjölda nýrra vina?

Svo er spurningin um barnalífeyri. Hann er fullur við 75% örorku og fer svo niður í núll við 50%. Af hverju er yfirleitt barnalífeyrir þegar maðurinn fékk ekki barnalífeyri áður en hann varð öryrki eða áður en hann lenti í slysinu? Það er yfirleitt ekki þannig að fólk sem er að vinna sé með barnalífeyri nema í gegnum skattkerfið og það heldur áfram eftir sem áður. Spurningin er: Af hverju er greiddur barnalífeyrir?